Skagfirðingabók - 01.01.1982, Page 10
SKAGFIRÐINGABÓK
Til leiðbeiningar fylgdu 12 spurningar til sýslumanna, en 70 til presta. í
spurningum til sýslumanna var lögð aðaláherzla á almennt yfirlit um landið,
efnahag landsmanna og veraldlega stjórn. Hinar nákvæmu spurningar til
presta skiptast þannig, að 30 fyrstu fjalla um náttúru landsins, landslag, vötn
og veðráttu, næstu 25 varða afkomu fólks, búskaparlag, hlunnindi, veiðiskap
og bjargræðisvegi, en síðustu 15 snúast aðallega um menntun, siðgæði, heil-
brigði og fornleifar.
Flestir sýslumenn og prestar brugðust skjótt við tilmælum Bókmenntafé-
lagsins, og svarbréf bárust ört næstu fimm ár, eða á tímabilinu 1839—1843.
Afram var haldið að ýta á eftir því, sem ekki skilaði sér, allt fram undir 1870,
en aldrei varð fullheimt, og ekki kom til útgáfu að þessu sinni.
Þegar frá leið, var lýsingar Skagafjarðarsýslu einnar vant sýslulýsinganna.
Hvorki Lárus Thorarensen, sem var sýslumaður, þegar boðsbréfið var sent,
né Kristján Kristjánsson, eftirmaður hans, virðast hafa orðið við beiðni
félagsins. Það var loks, að Eggert Briem tókst á hendur að semja umbeðna
lýsingu, en hann var sýslumaður Skagfirðinga 1861 — 1884.
Af ókunnum orsökum hefur þessi Skagafjarðarlýsing hafnað í handrita-
deild Landsbókasafns, þar sem hún er skráð án skýringa, en ekki hjá Bók-
menntafélaginu.
Á síðari árum hafa komið út margar sýslu- og sóknalýsingar, bæði í
sjálfstæðum bókum með efni úr heilum sýslum og stakar lýsingar innan um
annan fróðleik í héraðsritum. I upphafi hóf Bókaútgáfan Norðri útgáfu þessa,
er vera skyldi ritröð, sem næði yfir allt landið, en það voru einungis Húna-
vatnssýsla og Skagafjarðarsýsla (Ak. 1954), sem þannig komu út.
Hvað Skagafjarðarsýslu varðar, vantar sýslulýsinguna í hina prentuðu
útgáfu, og er þess getið í formála, að hún sé ekki í gögnum félagsins. Hins
vegar hefur farið fram hjá útgefendum, hvar hana var að finna.
Þegar Eggert Briem samdi lýsingu sína, hefur hann leitað aðstoðar Friðriks
Stefánssonar alþingismanns, hvað varðaði sýslumörk og byggðalög, enda var
sýslumaður sjálfur eyfirzkur að uppruna og skorti því kunnugleik um þessi
efni til jafns við heimamenn. Lýsing Friðriks, sem er að finna í Lbs. 1625 4to.,
er svo löng og ítarleg, að Eggert þurfti ekki að nota hana nema að litlu leyd.
Handritið ber með sér, að ekki hafi verið gerð nema ein uppskrift, því á
nokkrum stöðum, þar sem minnzt er einhvers enn frekar um það efni, sem
áður hefur verið greint, er nýjum fróðleik skotið inn með tilvísun til þess
staðar, sem við á hverju sinni. Þá gætir nokkurrar ónákvæmni á stöku stað í
lýsingunni, svo staðkunnugir menn þyrftu að yfirfara hana, hver á sínum
slóðum, ef hugað væri að útgáfu.
Hér, við prentun hinnar einkar vönduðu sýslulýsingar Eggerts Briems, er
stafsetning færð til nútíðarhorfs, en í engu hróflað við orðmyndum.
8