Skagfirðingabók - 01.01.1982, Qupperneq 111
MINNING AFA MÍNS
völd (biskup og stiftamtmann) til þess að fela lögreglustjóra í
Reykjavík og víðar „að hafa vakandi auga á þegar drukkinn
prestur sést á strætum og gefa það tafarlaust stiftsyfirvöldum til
kynna og nafngreina prestinn“. Þetta segjast greinarhöfundar
gera vegna þess, að þeir telja drykkjuskap og drabb fara í vöxt,
einkum meðal yngri presta, og ekki eigi að taka vægara á því en
áður var gert.
Hvert, sem verið hefur tilefni þessarar greinar í Þjóðólfi, sá
biskup ástæðu til að láta málið til sín taka. Þrem dögum síðar
sendir hann þeim sr. Gísla á Reynivöllum og sr. Magnúsi
Grímssyni á Mosfelli einkabréf, sem þó er fært inn i bréfabók
biskupsembættisins. Segist biskup, Helgi Thordersen, að vísu
ekki vita, hvað sé átt við með skrifum Þjóðólfs. En þeim hljóti
að vera stefnt að prestum í nágrenni Reykjavíkur, og „því finn ég
mér skylt“, segir biskup, „bæði sem forn kunningi og kennari
yðar og vegna þeirrar umsjónar, sem mér um tíma er falin á
hendur með andlegu stéttinni hér á landi, að biðja yður þess
innilega að hafa gát á sjálfum yður og forðast, sér í lagi þegar þér
komið hér eður annars staðar i kaupstað, að gefa grundað tilefni
til áminnstrar ásökunar, svo þér ekki með því spillið yðar eigin
áliti og velferð og gefið öðrum ásteytingarefni. Það er mér því
kærara að mega treysta því að þér munuð taka þessari minni
vinsamlegu ráðleggingu vel sem ég veit, að þér, að öðru leyti,
eruð svo prýðilega siðaður maður og því líkt nettmenni, að þér í
því tilliti getið verið stétt yðar til sóma.“
Svo mörg eru þessi biskupsins orð og þessar eru hans föður-
legu og velviljuðu áminningar. Um tilefni Þjóðólfsgreinarinnar
er ekki vitað, eins og fyrr segir. En annaðhvort er, að þessa tvo
presta hefur hent einhver ávirðing á almannafæri, eða biskupi
hefur þótt allur varinn góður þar sem þeir voru. Og svo mikið er
víst, að innilegt samband elsku og virðingar var milli biskups og
sr. Gísla alla tíð.
109