Skagfirðingabók - 01.01.1982, Blaðsíða 114
SKAGFIRÐINGABÓK
fólks í trúar- og kirkjulífi, sem ollu hreinni byltingu á þeim
sviðum. Messað var s. a. s. hvern helgan dag og guðsþjónustur
fjölsóttar, enda sóknin fjölmenn, eða hátt á 4. hundrað manns.
Kjósverjar voru margir myndar- og menningarfólk, eins og t. d.
á Meðalfelii. Þar bjó Ragnhildur Magnúsdóttir (lögmanns
Ólafssonar d. 1862), ekkja sr. Einars Pálssonar, og börn hennar.
„Hún var með merkilegustu konum, sem sögur fara af,“ segir
Finnur á Kjörseyri um þessa mætu konu. Meðal barna hennar
voru Páll gullsmiður, síðast i Sogni, Finnur bóndi á Meðalfelli,
faðir Eggerts, sem giftist Elínu dóttur sr. Gísla, og Brynjólfur,
lærður bókbindari, bjó í Meðalfellskoti. Má geta nærri hvern
menningarsvip þetta fólk hefur ásamt fleirum sett á sveit sína og
söfnuð.
Um kennimennsku sr. Gísla verður ekki mikið sagt, enda um
hana fáar heimildir, en almennt var hann talinn í fremri presta
röð. Hann hafði góðar námsgáfur, hlaut góða undirbúnings-
menntun og fékk háa einkunn á prófum. Dómur er til um eina
ræðu sr. Gísla. Vorið 1859 dó Ingvar Torfi Jónsson í Laugar-
dalshólum. Hann og mad. Guðlaug á Reynivöllum voru systra-
börn. Sr. Gísli var einn af þrem prestum, sem töluðu við útför
Ingvars „og þótti sú ræða áhrifamikil þótt stutt væri. Studdi líka
að því, að hún var borin svo ágætlega fram,“ segir Finnur á
Kjörseyri. Gamansama frásögn um kennimennsku sína birtir sr.
Gísli í bréfi til Páls Melsteð 14. júní 1863. Segir þar frá bónda
í Kjós, Sigurði í Káranesi, sem eitt sinn kom inn í bæ eftir messu
á Reynivöllum til að þakka fyrir kenninguna og bætti svo við:
„Ekki get ég búið til svona góða predikun prestur minn.“ Sr.
Gísli tekur fram, að mörg slík snilliyrði séu höfð eftir Sigurði
þessum.
Við visitaziur á Reynivöllum reyndust börnin vel uppfrædd.
Og það hefur sá, er þetta ritar, heyrt eftir Úlfhildi Guðmunds-
dóttur í Flekkudal, f. 1841, að sr. Gísli hafi verið mjög vel
metinn og vinsæll í sókn sinni. Úlfhildur var greind kona og
minnug. Hún var móðir sr. Guðmundar á Mosfelli.
112