Skagfirðingabók - 01.01.1982, Page 154
SKAGFIRÐINGABÓK
koma úr göngum. Eg var aftur á móti öll með hugann við
hvolpinn. Hann var dálítið órólegur og sleikti lappir sínar í
ákafa.
Við vorum orðnar dálítið leiðar að bíða. Mamma hafði gefið
mér mjólk á flösku og nokkrar brauðsneiðar. Nú sagði ég við
frænku: „Eigum við ekki að fá okkur bita, ég er orðin svöng.“
Þá komu í ljós veraldarvizka og yfirburðir hinnar sextán ára
gömlu stúlku: „Við skulum bíða með það þangað til strákurinn
kemur og bjóða honum bita.“ Þetta fannst mér auðvitað heilla-
ráð.
Við þurftum ekki lengi að bíða. Þarna kom hann. Nú sá ég,
að hann var laglegur. Við vorum öll svolítið vandræðaleg, en svo
fórum við að tala um hundinn, og allt var í himnalagi.
Þarna sátum við í brekkunni og spjölluðum saman. Allt í einu
sagði pilturinn: „Eruð þið ekki svangar? Má ég ekki bjóða ykkur
bita? Þetta er bara nestið mitt, og ef til vill komið skjóðubragð af
kjötinu. Annars var ég líka með hangikjöt, og það er áreiðanlega
óskemmt.“ Við vorum alveg stórhrifnar af nestinu hans kunn-
ingja okkar. Það var ekki amalegt að eiga nú að bragða á þessu
nesti, sem búið var að ferðast í pokum og skrinum fram á
Eyvindarstaðaheiði. Hreykin tók ég nú upp mjólkurflöskuna
mína og brauðið. Pilturinn brosti. „Þetta verður veizla,“ sagði
hann, og nú tókum við til óspilltra mála. Fátt var um áhöld. Það
var víst aðeins hnífur og einn bolli, en það kom ekki að sök. Allt
tekur enda. Borðhaldinu lauk fljótt. Nú var verið að kalla á
piltinn. Félagar hans voru víst að leggja af stað.
Hann kvaddi okkur með virktum og þakkaði okkur fyrir
hvolpinn, og við þökkuðum fyrir matinn. Þetta hafði nú verið
meiri dagurinn. Pilturinn leit um öxl. „Kannski við sæjumst
næsta haust?“ Þar með var hann kominn heim að rétt.
Þetta endurtók sig þó ekki. Nokkru seinna fór frænka min
suður til Grindavíkur, og þaðan lá leið hennar vestur á land. Bar
fundum okkar ekki saman fyrr en þrjátíu árum síðar.
Eg var kyrr í sveitinni minni fram yfir fermingu, og stundum
152