Skagfirðingabók - 01.01.1982, Blaðsíða 136
SKAGFIRÐINGABÓK
var frekar grannholda, mjóleitur í andliti, nefið beint, augun
lágu nokkuð djúpt, grá að lit. Hann horfði ógjarnan beint
framan í þá, sem hann talaði við, en skáskaut augunum öðru
hvoru á viðmælendur sína. Ennið var nokkuð hátt og hallaði
aftur, með talsvert djúpum kollvikum. Hárið skollitað og frem-
ur þunnt, hærðist seint. Beinn í baki og bar sig vel. Var fremur
hreinlegur af förumanni að vera.
Heldur þótti Sveinn litill verkmaður, þó segir Hartmann í
áðurnefndri minningargrein, að hann hafi þótt ágætur fjárhirðir,
og má það vel vera, en heyskaparmaður þótti hann ekki mikill og
heldur óverklaginn. Fiskiróðra mun hann eitthvað hafa stundað
á sinum yngri árum og jafnvel farið í hákarlalegur, eftir því sem
hann sjálfur sagði. Sagt var, að eitt sinn drægi hann selkóp á færi.
En það var trú manna, að sá sem drægi sel yrði sjódauður. Fylgdi
það sögunni, að Sveinn hafi ekki farið á sjó eftir það.
Þegar foreldrar Sveins flytja úr Fljótum, verður hann þar eftir
og gerist vinnumaður í Langhúsum hjá maddömu Katrínu,
ekkju sr. Jóns Norðmanns. Þar er hann í tvö ár. Þaðan flyzt hann
að Móskógum og verður þar vinnumaður hjá þeim hjónum
Jónasi Jósafatssyni og Guðlaugu Jónsdóttur, fyrri konu hans.
Ekki er hann þar nema eitt ár; verður síðar vinnumaður á
Krakavöllum, þá 25 ára, hjá Jóni Björnssyni og Höllu Þorleifs-
dóttur. Næsta ár finnst hann hvergi skráður, en skýtur svo upp á
Yzta-Mói og er talinn þar vinnumaður hjá Árna Þorleifssyni,
sem kallaður var hinn ríki. Ekki er hann þar nema eitt ár. Nú fer
hann aftur að Langhúsum til gömlu prestsekkjunnar, en ekki er
hann þar nema árið.
Árin 1886 og 1887 finnst Sveins hvergi getið. Næstu tvö ár er
hann talinn lausamaður á Steinavöllum í Flókadal. Þá bjó þar
Jósef Björnsson, sem síðar bjó lengi á Stóru-Reykjum. Árið 1890
er hann talinn vinnumaður á Yzta-Mói hjá Valgerði, ekkju Árna
ríka. Er þetta síðasta árið, sem hann finnst talinn sem vinnu-
maður. Næstu þrjú ár finnst hann ekki, en 1894 er hann talinn
leigjandi á Keldum í Sléttuhlíð og sagður kominn frá Yzta-Mói.
134