Skagfirðingabók - 01.01.1982, Page 149
SÍÐASTI FÖRUMAÐUR í SKAGAFIRÐI
sjálfsagt dottið í rökkrinu og lent niðri í skurðinum og ekki haft
þrek til að rísa upp aftur, andlitið var að mestu niðri í vatninu.
Brugðu þær nú við og sóttu mannhjálp heim í Hólakot og
Þrastarstaði. Var lík Sveins flutt heim að Þrastarstöðum og þar
var því veittur allur umbúnaður. Guðjón Klemenzson læknir í
Hofsósi var sóttur. Úrskurðaði hann, að um drukknun hefði
verið að ræða.
I peningabuddu Sveins fundust nokkrir hundrað krónu seðlar
og eitthvað af smámynt. Annað fémætt var ekki að finna í fórum
hans.
Ráðamenn þeirra þriggja hreppa, sem hann hafði mest ferðast
um, ákváðu að kosta í sameiningu útför hans. En það voru
Haganeshreppur, Fellshreppur og Hofshreppur. Eitthvað varð
þó lítið úr því. Ef til vill greiddu þeir kistuna, en annað ekki. Allt
annað greiddu þau hjón, Sigríður og Friðbjörn, og sáu um
útförina að öllu leyti. Húskveðja var haldin á Þrastarstöðum, og
öllum, sem komu, bornar rausnarlegar veitingar. Jarðsett var að
Hofi á Höfðaströnd. Prófasturinn í Skagafjarðarprófastsdæmi,
sr. Guðbrandur Björnsson, jarðsöng. Gat hann þess, að Sveinn
væri ekki aðeins síðasti förumaður í Skagafirði, heldur á öllu
Islandi. Sagðist honum vel, að sögn þeirra, sem við voru staddir.
Rættist þannig ósk og von Sveins, að hann var jarðaður frá
Þrastarstöðum og Sigríður eða þau hjón sáu áreiðanlega um það,
að hann var ekki jarðaður eins og hundur.
Mikil umferð er oft um vegi Skagafjarðar, sérstaklega á
sumrin. Þar bruna stórir og smáir bílar og „bílungar“, og
stundum sjást þar menn spretta úr spori á fjörmiklum og fal-
legum gæðingum.
En nú sést enginn gamall förumaður feta með stafprik sitt um
þjóðvegina eða utan þeirra.
Síðasti förumaðurinn í Skagafirði hefir runnið skeið sitt fyrir
tæpum 40 árum.
147