Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1982, Page 71
MULAÞING
67
norður á Herjólfsvík og bjarga fénu þar en sökum þess hve áliðið var
orðið, og við vissum að fólkið heima myndi undrast um okkur, kom
okkur saman um að annar okkar skyldi fara heim.
Blábjörg heitir þverhnípi utan í fjallinu milli Skálaness og Herjólfs-
víkur. Gegnum flug þessi ofarlega liggur svonefnd Mosfellsrák. Neðan
við hana er standberg í sjó en klettar ofan við. Sjálf rákin er skriða, en á
einum stað í henni er gil sem í er hörð móhella. I gil þetta eða skot
safnast fönn um leið og nokkur snjór kemur. Rákin er nokkuð misbreið,
8—10 metra, og snarbrött. Þarna fóru Húsvíkingar um með hesta í auðu
og frostlausu. Móhelluskotið er snarbratt, eins og rákin sjálf, og stund-
um ekki fært nema hlaupa það þegar móhellan er hörðust. Þetta var hin
venjulega leið milli Skálaness og Herjólfsvíkur. Nú var Mosfellsrák
vitanlega gersamlega ófær og þar að auki alófært norður í hana sökum
snjódýptar. Skálanesskriður voru einnig bráðófærar eins og fyrr getur.
Voru okkur því lokaðar venjulegu leiðirnar af nesinu. Við fórum þess
vegna upp af nesinu og urðum samferða, fórum upp svonefndan Kapla-
hrygg og upp á Skálanesheiði; þar skildu leiðir. Olafur fór heim en ég
norður Heiðarbrúnir og norður á Herjólfsvík. Vissi ég að allt var undir
því komið að mér tækist að ná þangað norður fyrir morgunflóðið og
hraðaði mér því eins og mér var unnt.
Klukkan hálf sjö um morguninn var ég kominn norður á Herjólfsvík
en háflóð var klukkan átta. Mátti það ekki tæpara standa því brimið var
farið að ganga undir féð þar sem það stóð í einum hnapp í Norðurkrókn-
um á Herjólfsvíkursandinum. Hins vegar var veðrið dáiítið farið að
batna, orðið lygnara en áður og tekið að draga úr snjókomunni. Mér
tókst að ná fénu upp af Herjólfsvíkursandi með því að troða fyrir það
slóð. Einnig veitti hundurinn, sem með mér var, dyggilega aðstoð en án
hans hefði ég ekki komið fénu upp. Stóð ég svo yfir hópnum þar til
tekið var að fjara aftur eða fram um klukkan hálf ellefu um morgun-
inn.
Ur því að heimilisástæðurnar voru, eins og áður hefur verið lýst, með
þeim hætti að kvenfólkið lá í mislingum hafði matseld öll gengið nokkuð
úrskeiðis eins og verða vill þegar karlmenn eiga að ganga í eldhúsverk-
in. Af þessum sökum höfðum við Ólafur farið mjög illa nestaðir að
heiman kvöldið áður, aðeins gripið með okkur lítinn bita sem næstur var
hendi er við héldum af stað. I hann höfðum við svo nartað um nóttina.
Fór líka svo að nesti okkar var gengið til þurrðar meðan við vorum enn
suður á Skálanesi enda hafði okkur aldrei órað fyrir að við ættum eftir
að lenda í öðrum eins erfiðleikum og raun varð á eða að svona seint