Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 13
ÆVIMINNINGAR
13
enda var hann meira gefinn fyrir sjósókn
en búskap. Búpeningur var hafður í
þrennu lagi, sauðir í Gjávík, ær í Melkoti
og lömb, hross og kýr heima. Mikinn
mannskap þurfti til að huga að þessu
öllu og heyja handa því, auk vinnunnar
við útgerðina. Fært var frá fram til 1916.
Við börnin vorum látin sitja yfir ánum og
þótti það afar leiðinlegt verk.
Mikil vinna var að vinna úr mjólkinni.
Selt var smjör og skyr og mikið notað af
mjólkurmat á heimilinu sjálfu. Móðir
mín var myndarleg og hagsýn búkona
og stjórnaði heimilinu vel. Hún hafði
lært fatasaum á Akureyri og saumaði
föt heimilisfólksins. Vinnukonurnar
þjónuðu vinnumönnunum, og hafði
hver vinnumaður sína þjónustu, sem
dró plöggin af honum og þvoði þau og
þurrkaði. Vart hefði þetta fallið rauð-
sokkum nútímans í geð, því að þessi
þjónustubrögð voru gjarnan unnin í
frítíma kvennanna og á sunnudögum. En
þetta var ungt fólk, og menn litu gjarnan
hýrt til þjónustunnar sinnar, ef hún var
góð. Stundum urðu úr þessu pör, sem
entust vel og lengi.
Bókakostur var góður í Felli og faðir
minn las Íslendingasögurnar á hverjum
vetri. Síðar kom lestrarfélag, og er mér
sérstaklega minnisstæð bókin Barn
náttúrunnar, sem ég fékk að láni þar.
Faðir minn keypti öll blöð, sem út komu.
Hann var mikill sjálfstæðismaður og
einstefnumaður í pólitík. Ég held að flestir
í sveitinni hafi verið sama sinnis, því að
eftir höfðinu dansa limirnir. Kvöldvökur
voru ekki haldnar í Felli að staðaldri og
húslestrar ekki lesnir nema á stórhátíðum.
Messað var annan hvern sunnudag, og
hefur það eflaust þótt nógur skammtur
af guðrækninni. Amma mín las þó alltaf
húslestur fyrir sig eina þann sunnudag,
sem ekki var messað, enda var hún
prestsdóttir.
Að fyrstu bernskuminningu minni
slepptri leið bernskan tíðindalítið fram
til 8. desember 1903. Þá varð ég átta ára.
Móðir mín hélt mér góða veislu, og þetta
var mikill gleðidagur. Tveimur dögum
síðar, eða 10. desember, vaknaði ég við
það í ömmustofu, að móðir mín stóð
og var að greiða sér. Hún hafði mikið og
fagurt hár. Hún hafði lokið við að greiða
helming hársins, þegar hún skyndilega
hætti og engdist af kvölum. Hún gekk
fram og við heyrðum mikinn ys og þys.
Hún var látin um hádegi. Strax hafði
verið sent eftir lækni, en stórhríð var
mikil og hún var dáin áður en hann kom.
Enginn vissi hvert var banamein hennar
og engin rannsókn fór fram á því, en
haldið var að annaðhvort hefði hjartað
bilað eða botnlanginn sprungið. Nýlega
var þá kominn fyrsti héraðslæknirinn í
Hofsós, Magnús Jóhannsson. Þótti öllum
mikill og góður fengur að honum, og
höfðu sumar gamlar konur við orð, að
hann læsi meira að segja hugsanir manna.
Eftir lát móður minnar tók Björg
amma mín við heimilinu, þá nær sjötugu,
og annaðist okkur börnin. Hún kenndi
okkur lestur, bænir og vers. Stafrófskverið
mitt var Gamla testamentið, sem var með
stóru letri. Einnig lét hún okkur draga til
stafs eftir forskriftarbók Mortens Hansens
skólastjóra í Reykjavík.
Faðir minn var ekkjumaður í þrjú
ár, og enginn vissi til, að hann liti á
nokkurn kvenmann, enda var hann mjög
siðavandur og strangur í þeim efnum. Það
var að vorlagi árið 1906, að pabbi kallaði
á okkur börnin inn til sín og sagði okkur,
að hann ætlaði að kvongast aftur í maí