Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 70
SKAGFIRÐINGABÓK
70
fór fram á Hofi strax í nóvember 1528, en
bréfið virðist ekki vera innsiglað fyrr en
fimm árum síðar eða á Hólum 12. febrúar
1533. Hvers vegna líður svo langur
tími? Leiða má líkur að því að eitthvert
málastapp hafi orðið út af arfinum
vegna þess að vottarnir taka fram að þeir
séu vissir í sinni sök: „vissum vér fyrir
full sannindi, að fyrr nefndri Þórunni
var svo miklum peningum lofað að
brúðkaupsdegi þeirra Hrafns heitins, því
vér vorum allir í því sama brúðkaupi.“28
Í yngri heimildum er fullyrt að ekki hafi
verið eining um arfinn.29 Þess er ekki
getið í samtímaheimildum. Svo langur
tími var óvenjulegur en engan veginn
einsdæmi.
Tvennt kemur fram í virðingarbréfinu
sem er umhugsunarvert. Annars vegar
segir að Jón biskup borgi Þórunni dóttur
sinni það sem hún hafði átt í búi Hrafns
og fyrr er talið. Bendir það til þess að Jón
hafi farið með fé Þórunnar sem sitt eigið
eftir lát Hrafns sem faðir og forsjármaður.
Þannig að ef til vill kemur þetta allt út
á eitt, fjármál Þórunnar og Jóns föður
hennar hafa verið svo samtvinnuð að erfitt
reyndist að aðgreina fjárhaginn. Einnig
er mjög líklegt að uppgjör hafi þurft að
fara fram vegna fyrirhugaðs brúðkaups
Þórunnar og Ísleifs Sigurðssonar þá um
vorið. Hins vegar var Jón samkvæmt
bréfinu skipaður fjárhaldsmaður barnsins
Ísleifs Hrafnssonar.
Í kaupmála Þórunnar og Hrafns
Brandssonar frá 1526 eru uppi á borðinu
mörg hundruð hundraða í jörðum, en
engin jörð nefnd á nafn. Ekki er vitað
hvaða jarðeignir voru í eigu Hrafns
Brandssonar nema Glaumbær í Skagafirði
sem hann náði út úr eignum Teits
Þorleifssonar eða „hafði keypt að nafninu
til“ og sá helmingur Bjarnaneseigna
sem samkvæmt Seyludómi féll undir
konung.30 Einnig er til heimild um
að Hrafn hafi eignast jörðina Skarð í
Fnjóskadal árið 1527, þegar Solveig
Hrafnsdóttir föðursystir hans fær
honum hana til eignar, með samþykki
Jóns biskups og systranna á Reynistað.
Í texta bréfsins kemur raunar fram að
Skarð hafi verið gömul ættareign, gefin
Reynistaðarklaustri með Solveigu. Hrafn
megi því frjálslega taka við jörðinni „sér
og sínum eftirkomendum til ævinlegrar
eignar“.31 Ekkert segir af eftirmálum
þessa gjafabréfs, en spyrja má hvort jörð
sem gefin var klaustrinu hafi svo frjálslega
mátt skipta um eigendur. Jón biskup
fær síðar Skarð í viðskiptum við Hrafn
tengdason sinn árið 1528.32 Sjö árum
síðar notar biskup Skarð í Fnjóskadal
sem milligjöf í jarðakaupum sem hann
átti við Bessa Þorláksson.33 Var þetta ef
til vill dæmi um hvernig bæði veraldlegir
auðmenn, jafnt sem æðstu stjórnendur
hinnar kaþólsku kirkju á miðöldum,
gátu braskað með kirkjueignir eins
og þær væru eigið fé? Vilborg Auður
Ísleifsdóttir telur þetta dæmi um, hvernig
28 ÍF IX, bls. 476.
29 Sbr. Bogi Benediktsson, 1881–1884, bls. 322 og JS 70 fol., bls. 131.
30 Páll Eggert Ólason, 1919, bls. 107. Í skrá um jarðir Teits Þorleifssonar frá 1522 eru taldar upp sem eignir hans
í Hornafirði 12 jarðir og tveir jarðarhelmingar, auk reka fyrir Uppsalalandi (ÍF IX, bls. 93).
31 ÍF IX, bls. 402–403.
32 ÍF IX, bls. 448–450.
33 ÍF IX, bls. 746–747.