Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 78
SKAGFIRÐINGABÓK
78
snúð en það breytir ekki því, að hún
hafði móður sinni alla tíð „mestan styrk
og manndóm veitt“ eins og Helga segir
sjálf í bréfinu. Þannig kemur Þórunn
skýrt fram í heimildum í hefðbundnu
hlutverki kvenna sem dóttir, systir, eigin-
kona og frænka.
Fyrri hluta ævi sinnar átti hún tvo
eiginmenn sem báðir voru stórauðugir
höfðingjar. Meðan þeirra naut við stýrðu
þeir lífi Þórunnar, að minnsta kosti
fjárhagslega þættinum. Um fertugt var
hún búin að missa þá báða. Á sama tíma
gengu siðaskiptin yfir á Norðurlandi
og faðir hennar og bræður voru teknir
af lífi. Þá er engu líkara en straumhvörf
verði í lífi Þórunnar á Grund. Hún kemur
eftirleiðis sterkari fram í heimildum
sem kaupsýslukona og fullgildur aðili
að deilu- og dómsmálum sem að henni
snúa. Deilurnar um Hof á Höfðaströnd
og Veturliðastaði í Fnjóskadal voru
tímafrekar, taka yfir áratugi, en Þórunn
lét hvergi deigan síga. Það er varla tilviljun
að hún beitir sér af svo miklum krafti inn
á valdasvæði karla, einmitt á þeim tíma
sem hún er farin að ráða sér sjálf, þ.e. eftir
1550. Hún hefur séð tækifærin, kunnað
að nýta sér þau og haft styrk til þess.
Tímar Þórunnar voru umbrotatímar.
Meiri breytingar gengu yfir á Íslandi
en áður voru dæmi um. Annars vegar
var ásælið danskt ríkisvald með sterkari
miðstýringu en áður þekktist. Hins vegar
var hið gamla íslenska miðaldaþjóðfélag
með öflugt ættar- og fjölskyldukerfi sem
rekja mátti langt aftur. Stjórnmálin ein-
kenndust af sterkum mönnum bæði
lærðum og leikum, sem höfðu fyrst og
fremst persónufylgi til að koma málum
sínum fram. Þessir menn notuðu flestar
aðferðir til að halda óbreyttu ástandi og
gripu jafnvel til vopna eins og raunin
var með Jón Arason, þegar honum
þótti danska ríkisvaldið seilast um of
til valda hér. Þórunn ólst upp í hinu
gamla kerfi og var að mörgu leyti barn
þess alla tíð. Hún neitaði að viðurkenna
nýjar áherslur og danskt efnahagskerfi.
Hún hélt dauðahaldi í gamla samninga
og fornan rétt fjölskyldunnar til eigna
og áhrifa og beitti sér hart til að halda í
fjölskylduauðinn.
Þannig kom hún öflug fram á
hefðbundið valdasvið karla. Það er ljóst
að Þórunn hefur náð undir sig einhverju
af eignum biskupsfjölskyldunnar eftir
siðaskiptin, þrátt fyrir Oddeyrardóm.
Henni fannst hún eiga sinn rétt og stóð
fast á honum eins og samskipti hennar
við konungsmenn vegna Grundar í
Svarfaðardal, sýna. Og hún hafði umráð
yfir fleiri jörðum sem voru fjölskyldueign,
notaði þær ýmist í jarðaskiptum
eða deildi um þær fyrir dómstólum.
Siðbreytingin hefur því ekki haft áhrif
á eignastöðu Þórunnar nema þá til hins
betra. Samskipti Þórunnar og Guðbrands
biskups Þorlákssonar benda einnig til
þess að Þórunn hafi haft talsverð ítök í
efnahagslífinu, meiri en honum þótti gott.
Ekkert bendir til annars en að hjóna-
bönd Þórunnar hafi verið farsæl. Lesa má
úr heimildum að til tveggja þeirra fyrstu
var stofnað af hagrænum ástæðum. Þau
héldu vel þrátt fyrir það, enda skilnaður
nánast óhugsandi. Hjónaskilnaðir tíðk-
uðust ekki í kaþólskum sið og þegar
mikið var í pottinum var fráleitt að fara
að sundra eignum, þannig hélt auðurinn
hjónaböndunum saman. Þórunn var líka
auðhyggjukona, þannig að hún hefur
ef til vill ekki látið ástina glepja sér sýn.
Þriðja og síðasta hjónaband Þórunnar