Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 103
ÉG SAT EINUNGIS EINN HEILAN VETUR Á SKÓLABEKK
103
Eitt og annað frá Fjalli
SIGURÐUR Benediktsson afi minn og
Margrét Klemensdóttir amma höfðu búið
á Vatnsskarði áður en þau fluttust vestur í
Langadal, fyrst að Auðólfsstöðum, síðar að
Botnastöðum, þar sem Sigurður afi minn
dó 1875. Amma bjó áfram á Botnastöðum
til 1888, að hún fluttist að Fjalli og bjó
þar þangað til foreldrar mínir tóku þar við
af henni árið 1904. Flutningurinn hefur
trúlega einkum verið vegna gestaánauðar
og svo voru Botnastaðir lítil jörð og léleg.
Gestanauð var svo sem ekki mikið minni
á Fjalli, en það var bara miklu betri jörð,
meira land og engjaheyskapur.
Faðir minn var aldrei neinn stórbóndi.
Hann var með hugann við fleira. Móðir
mín var miklu meiri bóndi held ég. Hún
var mikil atorkukona, bæði innan húss og
utan.
Búskaparhættir í Sæmundarhlíðinni
voru auðvitað óskaplega erfiðir. Þetta
voru vegleysur og erfitt með aðdrætti,
sérstaklega á veturna. Ekki var hægt að
flytja neinn þungavarning á sumrin því að
það var enginn kerrufær vegur fram eftir
sveitinni. Allir voru með sleða. Það var
eini möguleikinn til að flytja þungavöru.
Það var hægt að djöflast með sleða
meðfram Sæmundaránni, en kaflinn frá
Landi [Varmalandi] niður hjá Reynistað
var mjög erfiður. Annars var reynt að
brjótast yfir Langholtsásinn af Eylendinu.
Þar var aðal sleðaleiðin á veturna.
Það urðu fljótt erfiðleikar með ýmsa
aðdrætti og varning á stríðsárunum
1914–1918. Ég man eftir að malað var
korn á Brenniborg. Stefán á Brenniborg
var skyldur móður minni og mig minnir
að við færum með korn þangað til að
mala. Ég man að ég kom þangað og sá
vatnsmylluna, sem mér þótti merkilegt
fyrirbæri. Það voru fleiri til, en ekki aðrar
nær okkur heldur en hún. Kol var erfitt að
fá og tóbaksmenn voru í mikilli bölvun,
því að tóbak fékkst ekki nema með
höppum og glöppum á stríðsárunum. Það
var þónokkuð algengt að menn tækju upp
í sig. Faðir minn gerði það alla tíð. Það var
óalgengt að menn reyktu, þó til að menn
reyktu pípu. Það var einnig til að kvenfólk
reykti pípu og tæki í nefið. Sigurbjörg
gamla Jónsdóttir, amma Pálínu á Skarðsá,
tók í nefið. Ég kom oft til hennar þegar ég
var krakki. Hún sat alltaf í eldhúsinu og
var með tóbakspung, helvíta mikinn, sem
hún hafði við hliðina á sér. Hún fór í kör
seinna, var orðin eyðilögð af gigt að sitja
við hlóðarhellurnar. Þá lá hún í rúminu
með punginn undir koddanum og sagði:
„Það er gott að hafa eitthvert glimt að
grípa í.“
Ég man að seinast var baðtóbak það
eina sem faðir minn og aðrir gátu náð
í. Þeir reyndu að sósa það og setja í það
Foreldrar Jakobs, Benedikt Sigurðsson og
Sigurbjörg Sigurðardóttir, búandi á Fjalli
1904–1943.
Eigandi myndar: HSk.