Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 29
SKÍRNIR
... EINS MANNS SJÓFERÐASKRIF
23
mánaðar gamalt og hann talar mikið um sorg sem hann deyfir með
víni (341). Árni hefur verið þó nokkuð upp á kvenhöndina og hann
segir blátt áfram að erfitt sé að lifa eftir sjötta og sjöunda boðorð-
inu, þ.e. hvorki að drýgja hór né stela (262). Hann talar oft um
þjófa og e.t.v. liggur bitur reynsla að baki þessum orðum hans:
„Þeir stóru þjófar ganga frí en þá smáu taka þeir“ (260). Það verð-
ur þó að telja ósennilegt að Árni hafi gerst brotlegur við landslög
og sé á flótta undan armi laganna. Hann hafði „pass“ í lagi, fékk far
á skipi sem Skúli fógeti hafði umsjón með og loks hætti hann sér
hingað til lands aftur. Kannski hefur hann átt í einhverjum útistöð-
um við yfirvöld, því þegar hann sneri aftur eftir rúmlega tveggja
áratuga fjarveru segir hann að sýslumaðurinn, Magnús Ketilsson
(1732-1803), hafi verið sér í öllu mótfallinn (337) og áður hefur
hann getið þess sérstaklega þegar Magnús varð sýslumaður í Dala-
sýslu árið 1754 (261).26 Þá má vera að Árni hafi einungis viljað leita
sér fjár og frama, eins og bróðir hans sem þá var kominn til Dan-
merkur og hafði skrifað eftir honum (258). En Árni er í rauninni
bundinn í báða skó og átti fyrir börnum og búi að sjá þegar hann
tekur upp á því að fara til útlanda. Það er ekki ólgandi ævintýraþrá
sem fær hann til að slíta öll bönd við fjölskyldu og ættjörð heldur
reka sorg og sektarkennd hann áfram. Þó er ekki að sjá að hann
iðrist þess að hafa farið. En á gamals aldri snýr Árni aftur heim til
Islands (Penelópu?) og þá finnur hann hjá sér þörf fyrir að tengjast
26 í heimildum hef ég ekki rekist á neitt sem bendlar Magnús Ketilsson við Árna.
Magnús nefnir t.d. ekki í dagbókum sínum - sem hann hélt óslitið í 23 ár og
varðveittar eru í Lbs 373 4to - að Árni frá Geitastekk hafi komið til landsins
1799-1801. Ætla mætti að það hefði Magnús kannski gert ef þeir Árni hefðu
eldað grátt silfur saman frá fornu fari. Magnús þótti „eftirlits- og refsingasam-
ur um afbrot öll. Mun hafa þótt kenna breytingar er hann tók við sýslunni, því
að fyrirrennari hans, Sigurður íslandströll, þótti vægur sem yfirvald, bæði í
innheimtu og eins við afbrotamenn" (Þorsteinn Þorsteinsson 1935:145). Þor-
steinn segir ennfremur að Magnús hafi verið „talinn góður dómari og röggsamt
yfirvald, en sneiddi hjá óþarfa málum og sætti önnur, þegar slíkt horfði best
við“ (1935:146—47). Um viðskipti þeirra Magnúsar og Árna ritar Þorsteinn:
„Eftir því sem Árni Magnússon frá Geitastekk segir í æfisögu sinni, prentaðri í
Kaupmannahöfn 1918, þótti honum Magnús sjer erfiður viðskiptis í skiftamál-
um hans, en vel má vera, að það hafi ekki síður verið Árna sjálfum að kenna,
sem þá var orðinn óreglumaður og vissi varla hvað hann vildi“ (1935:147, neð-
anmáls). Þorsteinn getur ekki heimilda sinna fyrir þessu.