Skírnir - 01.04.2001, Page 204
198
LÁRA MAGNÚSARDÓTTIR
SKÍRNIR
en annars staðar. Reyndar svo mikið að stundum vitum við það eitt að hér
sé flest öðruvísi en annars staðar, án þess að hafa kynnt okkur sérlega
mikið hvernig aðrir staðir líti út.
Það þýðir að til skamms tíma hefur íslensk fræðimennska aðallega
snúist um tvennt. Annað er pólitík. Þá er markmið sagnaritunar sjálf-
stæðisbarátta og þjóðarsamstaða. Þar af leiðandi snýst hún annars vegar
um þann tíma sem Danakóngur var virkur stjórnandi landsins og hins
vegar um þjóðveldistímann, þ.e. tímann sem Island var sjálfstætt. Hitt
atriðið sem einkennir Islandssöguna er áðurnefnd sérstaða. Þá er bók-
menntaarfurinn í brennidepli, og hefur auðvitað verið deilt um hvernig
hann geti nýst sagnfræðingum. Afleiðing þessa er að tíminn frá 14.-16.
aldar og jafnvel fram á 17. öld hefur að miklu leyti fallið milli stafs og
hurðar sem rannsóknarefni. Tiltölulega fáir fræðimenn hafa helgað sig
tímabilinu sem hvorki tengist nútímanum pólitískt á augljósan hátt, né
hefur það fram að færa heimildir sem eru einstakar í veröldinni. Islend-
ingasögurnar eru að auki svo miklu skemmtilegri en aðalheimildirnar um
síðari hluta miðalda - fornbréfin. Rannsóknir um þessar aldir eru tví-
mælalaust of brotakenndar til að síast inn í söguvitund eða sjálfsvitund
þjóðarinnar.
Nú kasta ég fram tilgátu: Til viðbótar við það sem er áður sagt um
pólitískt eðli sagnaritunar er ekki tilviljun að sagnfræði hefur þróast á
þann hátt sem raun ber vitni. Sagnaritun fylgir ákveðinni braut, þar sem
hvert skref er rökrétt framhald af því síðasta, þótt samhengið verði ekki
ljóst fyrr en litið er yfir farinn veg. Hver aðferð, hver tíska, hvert við-
fangsefni sagnfræðinga hlýtur alltaf að koma í framhaldi af því sem áður
hefur verið gert í fræðunum. Nýútkomin fjögurra binda hátíðarútgáfa um
kristni á Islandi er auðskiljanleg í ljósi strauma og stefna í fræðaheimin-
um síðustu áratugi. Vel væri hægt að líta einnig á pólitískt baksvið, en að
sinni verður einblínt á fræðilegu hliðina. Baksvið ritstjórnarstefnunnar er
lýðum ljóst. Um nokkurt skeið hefur áhugi á sögu almennings, sögu
fólksins og lífshlaupi mannanna verið meiri en á konunga- og hetjusagn-
fræði fortíðarinnar. Stjórnmála- og stofnanasaga hefur vikið fyrir áhuga á
almenningi. Af þessum hugmyndum hafa sprottið margar nýjar greinar
innan fræðanna og mönnum hefur ljóst orðið að leiðir að heimildunum
eru óteljandi.
Hugmyndin um að rita sögu kristni á íslandi er heillandi. I raun svo
heillandi í huga mínum að til margra ára hefur fátt annað komist að. Síð-
an tilkynnt var um ritun kristnisögunnar hef ég beðið með óþreyju, ekki
síst í þeirri von að þar kæmi loksins nútímalega unnin sagnfræði um mál-
ið, sem ég gæti lært af og notað í mínum eigin rannsóknum. Því miður
náðist ekki tilætlaður árangur. Ritin eru að vísu safn um kristni á íslandi,
aðgengilega sett fram og er það vel. En þar er lítið á ferðinni sem bætir við
þá þekkingu eða skerpir þá sýn sem fyrir var. Má vera að það hafi verið