Skírnir - 01.04.2001, Page 31
SKÍRNIR
... EINS MANNS SJÓFERÐASKRIF
25
frumbyggjum Grænlands og kveður þá vera glaðsinna og nýtna,
hreinláta og duglega og leikna við veiðar en sumar stúlkurnar séu
heimskar, stundum éti þeir af sér lýsnar og sleiki börn sín í fram-
an (273). Hann skammast sín ekki fyrir að vilja lifa frillulífi með
grænlenskum konum. Það sé þó varasamt því að þær geti ekki
þagað yfir því „af heimsku og málæði" (273) en ef upp kemst
lenda menn annaðhvort í fangelsi eða hjónabandi. Arni er á hinn
bóginn lítt hrifinn af Indverjum og Kínverjum sem hann segir
þjófótta, enda reyndi hann það á eigin skinni. Blákaldur veruleik-
inn stendur Árna miklu nær en kristilegar útleggingar.
Annað sem sýnir vel hvernig persónuleg túlkun tekur völdin af
hlutlægri skoðun á fyrirbærunum er afstaða Eiríks og Árna til
Tyrkja, en Tyrkjahatur var mönnum í blóð borið síðan 1627. Þeg-
ar Eiríkur sér Tyrki í fyrsta sinn lýsir hann þeim svo:
í þessum svifum komu þar framhjá tveir menn sem höfðu andlit líkast
hundstrýni þótt önnur þeirra sköpun væri mikið lík manneskjum. Spurði
eg hvað fyrir einir þessir væru? Var mér sagt þeir væru kallaðir Hunda-
tyrkjar og byggi í Tartarien bak við Kína og væru mannætur. Virtist mér
þeir bera nafn með rentu þar þeir eru hálf svartir að lit og loðnir yfir allt
þá þeir eru nær skoðaðir og hafa þar til illmannlega ásýnd. (449)
Orðið „Hund-Tyrki“ holdgerist hér fyrir augum Eiríks, slíkt er
hatrið og fyrirlitningin. Árni ber aftur á móti engan kala til Tyrkja
þótt hann fari í hernað gegn þeim á vegum Katrínar miklu. Við-
bjóður hans á misþyrmingum hinna tyrknesku kvenna, sem áður
er getið um, leynir sér ekki né heldur aðdáunin á tyrkneskum
feðgum sem féllu í sjóorrustu eftir frækilega framgöngu:
Faðirinn var svo stór og sterkur sem risi. Hans handleggir voru svo
þykkvir sem fullkomins manns lær og eftir því var heili kroppurinn.
Hann hafði tvö sverð, eitt í hverri hendi og slóst með báðum. En einn
Greker er var af þeim Albaneser sem eru hið grimmasta fólk, hann kom á
bak þessum tyrkneska, stóra manni og lagði hann milli herðanna og kom
oddurinn út fyrir neðan bringspalirnar. Og þegar sá stóri, gamli maður
fékk sitt banasár, kastaði hann báðum sverðunum upp í loftið svo það
söng í þeim og féll á hrygginn, meðan blóðið út rann af kroppnum.
Þannig deyði hann með hreysti og hugprýði. Sonurinn var fram á skip-
inu. Og þegar sonurinn sá að faðirinn var nú dauður, varð hann sorgfull-
ur og varði sig ekkert, heldur gekk viljugur til síns dauða, og Rússar
hjuggu hans höfuð af en færðu hann fyrst úr klæðunum. (333-34)