Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 219
SKÍRNIR KRISTNI Á MIÐÖLDUM 213
hefur ekki einungis haft söguleg áhrif, heldur er hann, og hugmyndir um
hann, sennilega með mikilvægustu atriðum sem móta sögulega afstöðu
heimsins til miðaldakirkjunnar. Þó var hann ekki nema að hluta kirkjuleg
stofnun. í hugum margra er hann einnig tengdur við nornabrennur, sem
áttu sér reyndar aðallega stað eftir þann tíma sem telst til miðalda og ekk-
ert síður í mótmælendaríkjum.33 Sú hefð sem kaþólska kirkjan vann eftir
á miðöldum, og fólst í því að uppræta allar skoðanir sem gætu ógnað
stofnuninni sem slíkri, er engan veginn eini möguleikinn á stjórnun trú-
arstofnunar og var það ekki heldur á miðöldum. Islömsk ríki unnu til að
mynda ekki eftir slíkri reglu. Þessi stefna hefur á hinn bóginn haft gríðar-
leg áhrif á sögu Vesturlanda og heldur áfram að gera það löngu eftir að
kaþólska kirkjan hefur rýrnað, innan annarra kirkjudeilda og á ýmsum
öðrum vettvangi. Nefna má sem dæmi að samsetning bandarísku þjóðar-
innar er að stórum hluta afleiðing þessarar stefnu sem lifði góðu fram-
haldslífi í kirkjustefnu mótmælendakonunga síðari alda. Þar hafa t.d. þró-
ast hugmyndir um trúfrelsi á annan hátt en í Evrópu og margt sem kem-
ur Evrópumönnum spánskt fyrir sjónir, ekki síst í stjórnmálum þar í
landi, á rætur sínar að rekja til kirkjustjórnar miðalda. Þróun stjórnsýslu-
stofnana um alla Evrópu dró einnig mjög dám af kirkjustofnuninni sem
fór þar á undan.34 Margar stofnanir sem enn eru grundvöllur samfélags-
skipunar eiga rætur að rekja til miðaldakirkjunnar.35
Allt þetta þarf að skrifa inn í íslenska sögu, hvort sem hún heitir
kirkjusaga eða eitthvað annað. Ef það er ekki gert verður saga Islands fá-
tæklegri og illskiljanlegri en ella. I fyrsta bindi Kristni á Islandi er kafli um
erlent baksvið kristninnar. Hann er bæði fróðlegur og skemmtilegur. Þar
er meðal annars sagt frá tengslum norrænna manna við Bretlandseyjar
sem og írsk-skoska og engilsaxneska kristni og samspil hennar við hina
kaþólsku og þannig er rakinn, í stuttu og skýru máli, aðdragandinn að
trúskiptum Norðurlanda. Helgi Guðmundsson hefur ritað um þessi
tengsl í Um haf innanfb sem tengist auðvitað beinlínis landnáminu líka,
en þetta hefur oft verið vanrækt í almennu söguyfirliti. Það er fagnaðar-
efni að slík umfjöllun sé í Kristni á Islandi og hefði bætt verkið að hafa
kafla um tengsl við umheiminn í umfjöllun um önnur tímabil.
33 Sérfræðingar í kirkjusögu miðalda reyna gjarnan að benda á þá staðreynd að
nornabrennur hafi ekki verið einkenni miðalda, heldur átt sér stað eftir þær. Sjá
t. d. John Shinners, Medieval Popular Religion 1000-1500. A Reader (Ontario,
New York og Lundúnum 1997), bls. 238.
34 Geir Atle Ersland og Hilde Sandvik, Norsk Historie 1300-1625. Eit rike tek
form (Osló 1999), bls. 117.
35 Brundage, Medieval Canon Law, bls. 198.
36 Helgi Guðmundsson, Um haf innan. Vestrœnir menn og íslenzk menning á
miðöldum (Reykjavík 1997).