Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 141
SKÍRNIR
TIL VARNAR MANNÚÐ OG JAFNRÉTTI
135
ar sem leiddu til skilnaðar þeirra árið 1906.25 Framan af virðist
skilnaðurinn hafa farið fram í fullri kurteisi. Eignaskiptasamning-
urinn, dags. 12. janúar 1907, kveður á um jöfn skipti á báðum
heimilum þeirra. Tekið er fram að prentsmiðjan sé eign Margrjet-
ar: „Margrjet J. Benedictsson heldur til eignar og umráða Prent-
smiðju Freyja Printing + Publishing Co. of Wpg., Man., einnig
eignar- og útgáfu-rjett mánaðarritsins Freyju, sem sinni sjer-
skildri eigin eign.“ Hins vegar er tilskilið að „Sigfús B. Benedicts-
son skal fá og hafa Prentsmiðju Freyja Printing and Publishing
Co. til arðs og afnota, og í þess stað skal sjá um setningu á 8 bls.
mánaðarritsins Freyju (sögukaflanna) auk þess prentun og próf-
arkalestur alls blaðsins." Þetta fyrirkomulag virðist hafa gengið
uns Margrjet afturkallaði heimildina til Sigfúsar 27. maí 1910.
Þessi afturköllun, sem lögfræðingur Margrjetar undirritaði 3. júní
1910, virðist hafa angrað Sigfús svo mjög að hann stöðvaði allan
póst sem var áritaður til Freyju og lét loka prentsmiðjunni.26
Margrjet dró enga dul á að hún gat ekki sætt sig við þessar að-
gerðir, sem gengu þvert á ákvæði eignaskiptasamningsins, eins og
fram kemur í tveimur bréfum til Sigfúsar; einu sem var birt 17.
ágúst 1911 í Heimskringlu og öðru sem varðveist hefur meðal
pappíra Margrjetar og er dagsett 16. nóvember 1911:
25 Ástæður skilnaðar þeirra eru ókunnar. Margrjet segir í leiðara sínum í desem-
ber 1905 (VIII:5) að árið 1905 hafi verið erfitt. í janúarblaðinu 1906 (VIII:6)
birti hún fremur neikvæða gagnrýni um kveðskap Sigfúsar eftir Sigurð Júlíus
Jóhannesson og hlýtur það að hafa komið við kaunin á hinum fyrrnefnda.
26 Holenski 1980: 51, 64. Sbr. tilkynningu Margrjetar í Heimskringlu 2. ágúst
1911: „Allir, sem hafa bréfaviðskifti við mig undirritaða, eru vinsamlega beðn-
ir að skrifa utan á öll slík bréf til mín persónulega, þannig: Margrét Benedicts-
son, 522 Victor St., Winnipeg, Man., en ekki til ‘Freyja’ eða til ‘Freyja Prt. &
Publ. Co. af þeirri ástæðu, að Sigfús B. Benedictsson hefir fastsett öll bréf og
blöð send ‘Freyja’ eða ‘Freyja Prt. & Publ. Co.’ á pósthúsinu í Winnipeg. Síð-
an ég kom austur hefi ég verið að berjast við, að fá endurnýjaðan útgáfurétt
minn á ‘Freyju’ hjá Canada póststjórninni, - rétt, sem ég með hinni löngu fjar-
veru minni hafði fyrirgert. Og þegar ég loks hélt því máli vel á veg komið, kem-
ur Sigfús B. Benedictsson og fastsetur á pósthúsinu öll bréf og blöð send
‘Freyju’ eða ‘Freyja Prt. & Publ. Co.,’ sem eigandi blaðsins. [...] Þeir, sem unna
‘Freyju’ og starfi mínu í þarfir kvenréttindanna svo mjög, að þeir vilji vita um
frekari fyrirætlan mína gagnvart hvorutveggja - því ég hefi alls ekki hugsað mér
að gefast upp - , geta skrifað mér eftir frekari upplýsingum“ (6).