Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 232
226
PÁLL BJÖRNSSON
SKÍRNIR
kirkjusögu hefði orðið fremur rýr, vegna þess að þar til á síðustu árum
hafa konur ekki gegnt veigamiklum hlutverkum í kirkjulegum stofnun-
um. Um þetta segir Hjalti í inngangi: „Sérstaklega var lagt fyrir höfunda
að kanna trúarlega menningu kvenna og kirkjulegt hlutverk þeirra og
stöðu en þetta hefur löngum verið vanrækt svið. Var einnig ráðinn sér-
stakur sérfræðingur til að annast þennan þátt, bæði með eigin skrifum og
ráðgjöf fyrir aðra höfunda" (I, viii) og hafði Inga Huld Hákonardóttir
það hlutverk með höndum. Síðan bætir Hjalti við orðum sem fær mann
til að staldra við: „Ekki var þó ráð fyrir því gert að verkið væri ritað út frá
kvennasögulegu sjónarhorni." Það er harla óvenjulegt að svo skýrt sé
kveðið á um frá hvaða sjónarhorni verk sé ekki skrifað. Raunar er ekki
reynt að skýra út hvað hið „kvennasögulega sjónarhorn“ feli í rauninni í
sér. Þessi yfirlýsing er furðulegri fyrir þá sök að Hjalti hefur stuðlað að
rannsóknum á hlut kvenna í kristninni og t.d. tekið virkan þátt í skipu-
lagningu ráðstefnu um það efni.7
Enginn höfundanna fullyrðir að kristni og lúthersk kirkja hafi verið
eitt af vígjum karlmennskunnar fram á síðustu áratugi, þótt það sé sú
mynd sem blasi við í sögu vestræns kristindóms, a.m.k. eftir að tímabil
frumkristninnar rann sitt skeið á enda. Kannski er það til marks um að
þeir hafi fylgt ritstjórnarstefnunni út í æsar, að nýta sér ekki hið „kvenna-
sögulega sjónarhorn". Slíkt sjónarhorn hefði getað leitt höfundana inn á
braut kynjasögunnar og til að beita kyngervi (gender) sem greiningartæki
á kerfisbundinn hátt. Með þeirri aðferð hefðu höfundarnir einmitt getað
afhjúpað eina mikilvæga gerð þeirrar „öðrunar“ og „jöðrunar“ sem
beindist að konum, greint kúgun sem var samofin hinum menningarlega
vef sem fólk fæddist inn í og ólst upp í. Þetta er mikilvægt atriði, einkum
vegna þess að kristnin var hluti af þessum vef. Bandaríski sagnfræðingur-
inn Lynn Hunt er meðal þeirra sem hefur bent á að farsælasta leiðin til að
rannsaka konur felist ekki í því að skoða þær einar sér, heldur miklu frem-
ur í greiningu á tengslum þeirra við karla og einnig þeim hugmyndum og
viðhorfum sem mynduðu grundvöll þess að konum var meinað að standa
jafnfætis körlum, meinaður aðgangur að fjölmörgum félagslegum rýmum
samfélagsins.8
Maður hefði jafnvel átt von á því að Loftur Guttormsson myndi beita
kyngervi sem greiningartæki vegna þess að fyrir tæpum tveim áratugum
7 Sjá Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Islands, ritstj. Inga Huld Hákon-
ardóttir (Reykjavík 1996).
8 Lynn Hunt, „The Challenge of Gender. Deconstruction of Categories and
Reconstruction of Narratives in Gender History”, Geschlechtergeschichte und
Allgemeine Geschichte. Herausforderungen und Perspektiven. Göttinger Ge-
sprdche zu Geschichtswissensckaft. V. bindi, ritstj. Hans Medick og Anne-
Charlott Trepp (Göttingen 1998), bls. 63.