Skírnir - 01.04.2001, Page 120
SKÍRNIR
114 GOTTSKÁLK Þ. JENSSON
Nicolai Petri Sibbern piœ memonæ Concionatoris Aulæ Gluck-
stadiensis).
A blaðsíðu 72 er spássíuathugasemd við næsta hluta handrits-
ins þar sem er að finna tvö bréf Arna Magnússonar til herra de
Bassewitz frá árinu 1719. A spássíunni segir: „Arni Magnússon
þessi var prófessor í Kaupmannahöfn og Islendingur að þjóðerni.
Hann átti mikið safn handrita, sem hann glataði þó þegar mikill
eldsvoði geisaði nýlega í Kaupmannahöfn. Þessi víðfrægi maður er
látinn, svo sem segir í janúarhefti fréttablaðsins frá Kaupmanna-
höfn {scripta novellæ Hafnienses) fyrir árið 1730.“ Hvorki er
minnst á brunann né dauða Árna Magnússonar í meginmáli
„Conamina historiæ litterariæ Islandiæ“. Af þessu má ætla að
Sibbern hafi látist einhvern tíma í lok 1729 eða snemma árs 1730,
og að það hafi verið eitt síðasta verk hans að ljúka við þetta hand-
rit. Því miður er ekki ljóst hvort hægt sé að eigna honum hinn
ágæta titil prentuðu útgáfunnar. Sá heiður gæti allt eins borið út-
gefandanum Dreyer, sem þá hefur réttilega tengt skipulag og efn-
istök ritsins við bókmenntasögur Thura og Falsters. En þótt þessi
niðurstaða sé ekki örugg, að því leyti að við getum ekki ákvarðað
dánarár Sibberns með fullri vissu, þá skýrir hún a. m. k. uppruna
prentuðu útgáfunnar og þá staðreynd að Sibbern entist ekki aldur
til þess að gefa verkið út sjálfur, ekki frekar en önnur ritverk Jóns
sem hjá honum lágu, eins og hann virðist þó hafa ætlað sér.29
29 Grein þessi er að stofni til fyrirlestur sem ég flutti þann 13. september 2000 í
Skólabæ á vegum Félags íslenskra fræða. Rannsóknin að baki henni hefur nú
staðið yfir í rúmlega tvö ár og á þeim tíma hef ég notið ábendinga og aðstoðar
margra, þ. á m. Gauta Kristmannssonar, Guðrúnar Ásu Grímsdóttur, Margrét-
ar Eggertsdóttur, Matthews Driscoll, Shauns Hughes, Sigurðar Péturssonar,
Ögmundar Helgasonar og síðast en ekki síst Annette Lassen, sem gerði mér
mögulegt að ferðast til Gluckstadt sumarið 2000 og smakka Matjes. Einnig
þakka ég fyrir laun í tvo mánuði frá Det Arnamagnæanske Legat til rannsókna
í Árnasafni í Kaupmannahöfn og styrk úr Vísindasjóði íslands til þess að vinna
að útgáfu Sciagraphia Hálfdanar Einarssonar og rannsóknum á bakgrunni þess
rits.