Skírnir - 01.04.2001, Blaðsíða 107
SKÍRNIR HUGMYND UM BÓKMENNTASÖGU ÍSLENDINGA 101
hefði bara ekki ennþá getað komið ákvörðun sinni í framkvæmd, taldi ég
mig ekki með öðru móti geta komið réttilegar í veg fyrir undirbúning hans
á svo ruddalegri og frekri útgáfu af einhverjum þessara rita, en ef ég sjálfur
einhvern tíma sæi um að koma sumum þeirra fyrir sjónir almennings. Því
er hér boðið upp á Smælki hinnar íslensku bókmenntasögu, tínt saman úr
fáu af því sem ég skildi eftir í Glúckstadt hjá fyrrnefndum herra, en dálítið
aukið frá köflunum fjórum sem áður var lokið. Ég viðurkenni að ritið er
léttvægt og gerir ekki neinum hluta bókmenntasögunnar full skil, eins og
hefði mátt skrifa hana ef við hefðum nokkurs staðar kafað dýpra í fræði og
lærdóm Islendinga. En titill þessarar ritgerðar lofar ekki heldur miklu, og
þar sem ég hafði lært af dæmi annarra, sem gefið hafa út þess háttar bók-
menntasmælki (þó ekki íslenskt), að svona rit eru ekki fyrirlitin heldur eft-
irsótt og við þeim tekið af áhuga og þau lesin með góðvilja af mörgum,
einnig hinum lærðari, reiði ég mig á og sækist eftir sama þakklæti frá hin-
um lærðari mönnum.
Að þessu sögðu boðar Jón „Specimen Islandiæ Non-Barbaræ“,
þar sem hann hyggst veita meiri fróðleik um íslenska bókmennta-
menn, en þetta rit, sem einnig er á latínu, fylgir þeirri niðurskipan
sem hann kallar að ofan catalogus alphabeticus scriptorum, en það
er rithöfundatal í stafrófsröð.
Eins og sjá má er að myndast einhvers konar eignartilfinning
yfir ritum, undir áhrifum frá latneskri umfjöllun um höfunda og
áherslum á höfundarverk Rómverja og Forngrikkja, en hvorki er
til staðar lagaleg né siðferðileg hefð sem kemur í veg fyrir að hinn
eða þessi, skrifari eða jafnvel prentari, gefi út verk undir fölsku
nafni eða bara til þess að græða á því, án þess að höfundur fái
nokkuð fyrir sinn snúð. Af því stafa áhyggjur Jóns, sem er í mun
verri aðstöðu en Sibbern, af því að verk hans komist í hendur
ókunnugra og séu gefin út annaðhvort undir röngu nafni eða und-
ir hans eigin nafni en á þann hátt að honum sé skömm gerð en ekki
heiður sem höfundi og lærðum manni. Eins og Jón útskýrir í
alllöngu máli var dönskum bókasöfnurum í Kaupmannahöfn ekki
gefinn kostur á að kaupa hið mikla einkabókasafn Sibberns, held-
ur lenti safnið hjá ónafngreindum Þjóðverjum, og þar á meðal rit
Jóns sjálfs sem hann hafði unnið fyrir Sibbern, og ganga þau hon-
um þannig úr greipum.
Þær upplýsingar sem hér koma fram gefa nokkuð fyllri mynd
af sögunni að baki kaflanna fjögurra um íslenska bókmenntasögu