Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 12
A r n a l d u r I n d r i ð a s o n
12 TMM 2013 · 4
Miðaldirnar tala til okkar enn í dag í gegnum handritin og við tölum
sömuleiðis mál þeirra. Við notum sömu orðin og við finnum þar til þess að
tjá tilfinningar okkar. Við erum ekki aðeins vörslumenn handritanna og
rannsökum þau og hýsum þau og sjáum til þess að þau falli ekki í gleymsku.
Við erum lifandi notendur þess sama máls og þau eru rituð á og það er
spurning hvort við töluðum íslensku enn í dag ef við hefðum ekki átt hand-
ritin að bakhjarli. Við eigum að vera stolt af því og halda því á lofti og skilja
að þetta sérstaka, beina samband sem við höfum við kvæði og frásagnir
miðalda er einstakt og dýrmætt og þess virði að varðveita eftir megni svo
við getum sagt það sama eftir önnur hundrað ár. Og önnur þúsund ár. Þau
eru vissulega eign alls heimsins og geyma sannar heimsbókmenntir, en þau
eru líka okkar eign, varðveita sögu okkar og tilveru, orðin sem þau geyma
svo samtvinnuð þjóðinni að þau verða aldrei skilin frá tilvist hennar. Líkt og
þeir sem báru handritin úr eldinum forðum verðum við að eiga þá taug sem
til þarf að gera veg þeirra sem mestan.
Það hefur löngum verið árátta þessarar þjóðar að vilja tjá sig í rituðu máli
og við höfum aldrei haft betri tækifæri til þess eða handhægari tæki en nú á
dögum, með hinum nýju samfélagsmiðlum. Það er orðið eins og hver annar
heimilisiðnaður að segja frá með hinu skrifaða orði. Leika sér með tungu-
málið. Þróa það og auka notkunarmöguleika þess. Netnotkun er óvíða meiri
en hér á landi. Hér eru allir á feisbúkk og hér eru allir að blogga um stórt og
smátt allan liðlangan daginn. Og hér eru allir að tísta í ofanálag. Við eigum
að fagna því og gleðjast yfir nýjum miðlum og hvernig tungumál fornritanna
birtist okkur á degi hverjum í hinu nýja rafræna formi. Við erum ekki lengur
upp á örfáa skrifara komin til þess að festa sérvaldar sögur á skinnblöð. Núna
skrifum við, hvert og eitt, handrit byggð á okkar lífi og lífi okkar nánustu
og gefum út á svipstundu, miðlum fróðleik, segjum sögur, tiltökum lífsgildi,
setjum fram skoðanir. Og gleymum því ekki að aldrei í sögunni hefur verið
jafn auðvelt að gera það sem gömlu rithöfundunum þótti mest um vert, að
öðlast margra heima sýn. Hlýtur það ekki að vera grunnurinn að íslenskri
menningu, þá eins og nú?
Má ég nefna að lokum hversu ánægjulegt það er að svona myndarleg
alþjóðleg ráðstefna skuli vera haldin hér á landi um eins mikilvægt efni,
fróðlegt og ekki síst skemmtilegt og handritin okkar.
Njóti sá er nam,
heilir þeir, er hlýddu …
… eða, svo tekin séu upp kveðjuorðin í einu handriti Grettissögu: „Hafi þeir
þökk er hlýddu en sá litla sem krabbað hefir.“
Fyrirlestur á ráðstefnunni Heimur handritanna sem haldin var í Norræna húsinu í
október 2013 á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í tilefni af 350 ára afmæli Árna
Magnússonar.