Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 22
A u ð u r Ava Ó l a f s d ó t t i r
22 TMM 2013 · 4
Eða eru þau tuttugu og fjögur? Er ekki allt í lagi að tékka á því hvort önnur
aðferð virki, svona sirka bát einu sinni á 2000 ára fresti?
Okkar sendiboði hefði líka getað gert tímalaus orð Stephans G, – sem
hann heilsaði nýlega uppá í Vesturheimi og er að sögn það heitasta í íslenskri
menningu í dag – að sínum um leið og hann ávarpaði áhrifamenn í austri
og vestri:
„Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.
Vinur aftansólar sértu.
Sonur morgunroðans vertu.“
(og látið túlkaþjónustu um að snara)
Væri slíkt útspil ekki víst til að koma róti á víggirtustu sálir?
Já, okkur dreymir um hugrakka ídealista en síðan kemur okkar sendiboði
aftur heim frá útlöndum og segir:
… Jú, Obama var ferlega næs og ég náði alveg að slappa af … það hjálpaði náttúrlega
til við að brjóta ísinn að vera í spariskó á einum og strigaskó á hinum … Um hvað
við töluðum … já, hérna við vorum bara að spjalla … þarna um … já hvað heitir hún
aftur … hérna nýjasta stjörnustríðsmyndin? – Gun 16, já, alveg rétt …
En hvað hefði rithöfundurinn gert, spyr nú einhver? Ég tel fyrirfram úti-
lokað að Jón Gnarr hefði klætt sig upp í dökk jakkaföt með bindi, einkennis-
búnað valdaklúbbs karlmanna á Vesturlöndum. Og ég tel jafnframt ólíklegt
að hann hefði talið spariskó forsendu þess að fá mynd af sér með valdamesta
manni heims og því væri betra að vera í einum en engum. Við getum gert
okkur í hugarlund hvernig borgarstjórinn hefði klætt sig upp til fundar við
Pútín og við getum alveg séð fyrir okkur að hann hefði til dæmis farið í
stjörnustríðsbúninginn sinn við þetta tækifæri. Og aðferðin?
Ég held hann hefði fyrst náð athyglinni með þeirri aðferðafræði sem er
inntak allrar sköpunar og felst í því að víkja frá boðaðri dagskrá og slá fólk
út af laginu.
Kannski hefði hann brugðið sér í líki barnsins í Nýjum fötum keisarans (til
að halda bókmenntaþræðinum) og bent á hið augljósa sem allir forðast að tala
um (af nógu væri að taka; til dæmis mætti benda á hvaða ríki högnuðust mest
af vopnasölu til Sýrlands). Síðan hefði komið í ljós að honum væri full alvara.
Þar fyrir utan; hvað skyldu íslenskir rithöfundar helst vera spurðir að
í útlöndum? Ja, til dæmis það hvernig það sé að eiga bara landamæri að
hafinu en ekki að öðrum þjóðum og eiga þar af leiðandi enga nágranna til
að fara í stríð við? Þannig spurningu fékk ég eitt sinn frá manni sem bjó á
landamærum og átti langömmu sem hafði fæðst þýsk en breyst í Frakka í
einhverju stríði og verið jörðuð í frönskum kirkjugarði. Dóttir hennar, amma
viðmælanda míns, hafði síðan breyst aftur í Þjóðverja í næsta stríði og dáið
þýsk en sonur hennar, faðir viðmælanda míns verið franskur frá árinu 1945.