Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Síða 44
A l i c e M u n r o
44 TMM 2013 · 4
neitt á þessari stundu. Sú staðreynd að hún yrði dáin innan árs jafnaði ekki
út þá staðreynd að hún gæti dáið núna.
Hann sagði: „Heyrðu, þetta er eðalstöff. Ekki skrúftappi. Áttu tappatogara?“
Hún færði sig að skúffunni en hann stökk til og ýtti henni til hliðar, þó
ekki harkalega.
„Öh, ég skal ná í hann. Haltu þig frá þessari skúffu. Vá, fullt af fínu dóti
hérna.“
Hann tók hnífana úr skúffunni og lagði á stólsetuna hjá sér, þar sem
hún gat ekki náð til þeirra. Hann opnaði flöskuna með tappatogaranum og
hún komst ekki hjá því að sjá hvers konar andstyggðartól hann gæti verið í
höndum hans, en það var ekki minnsti möguleiki á því að hún gæti nokkurn
tíma beitt honum.
„Ég ætla að ná í glös“, sagði hún en hann sagði nei.
„Engin glös“, sagði hann. „Áttu plastmál?“
„Nei.“
„Bolla þá. Ég get séð þig.“
Hún lagði tvo bolla á borðið og sagði: „Bara pínulítið handa mér.“
„Og líka handa mér“, sagði hann faglega. „Ég er á bíl.“ En svo fyllti hann
bollann upp að brún. „Ég vil ekki að einhver lögga reki inn hausinn til að sjá
framan í mig.“
„Sindurefni“, sagði hún.
„Hvað áttu við með því?“
„Það er eitthvað í sambandi við rauðvín. Það annaðhvort eyðir þeim,
sindurefnunum, af því þau eru slæm, eða byggir þau upp af því þau eru góð
– ég man það ekki.“
Hún fékk sér sopa af víninu og varð ekki illt af því eins og hún hélt. Hann
drakk standandi. Hún sagði: „Gættu þín á hnífunum þegar þú sest.“
„Ekki byrja á neinu djóki við mig hérna.“
Hann safnaði saman hnífunum, setti þá aftur í skúffuna og settist.
„Heldurðu að ég sé heimskur? Heldurðu að ég sé stressaður?“
Núna tók hún stóra áhættu. Hún sagði: „Ég held að þú hafir aldrei gert
neitt svona áður.“
„Auðvitað hef ég það ekki. Heldurðu að ég sé morðingi? Ókei já, ég drap
þau en ég er ekki morðingi.“
„Það er tvennt ólíkt,“ sagði hún.
„Það geturðu hengt þig upp á.“
„Ég veit hvernig þetta er. Ég veit hvernig það er að losa sig við einhvern
sem hefur skaðað mann.“
„Nú?“
„Ég hef gert það sama og þú gerðir.“
„Það hefurðu aldrei gert.“ Hann rykkti aftur stólnum en stóð ekki á fætur.
„Þú ræður hvort þú trúir mér“, sagði hún. „En ég gerði það.“
„Þú gerðir það sko ekki neitt. Hvernig gerðirðu það?“