Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 66
66 TMM 2014 · 3
Bjargey Ólafsdóttir
Norræna
Í dag heiti ég Grímur Thomsen. Mér finnst gaman að þykjast vera eitthvert
skáld. Ég fer í þykjustuleik. Fer út í daginn, klæddur eins og skáldið og mæli
eins og skáldið. Ég samsama mig Grími. Ég er í París. Ég er blankur. Faðir
minn skrifar mér samskonar bréf og faðir Grímsa skrifaði honum. Að öðru
leyti erum við kannski ekki líkir. Hann keypti hórur, ef hann átti peninga.
Ég er feministi, já, frönsku gaurunum finnst það fáránlegt. Gaur sem er
feministi. En jú eins og Soffía sænska vinkona mín segir, þá eru þessir frans-
menn ekki alveg jafn langt komnir og við þessir norrænu … Hún fílar samt
að kela við fransmennina núna á meðan hún er í námi, en svo þegar hún
ætlar að festa ráð sitt, stofna fjölskyldu og eignast orma, þá ætlar hún að ná í
einn norrænan. Ég segi henni að passa sig þá að láta þá ekki barna sig, þessa
fransmenn. Ég ráðlagði henni þá að ná sér frekar í einhvern ríkan latino
gaur, þá gæti hún bara haft barnfóstru og haft það huggulegt, hún þyrfti þá
ekkert að hafa fyrir uppeldinu. En þetta er jú útúrdúr, enda er þetta sendibréf
til mín, mín sem Gríms Thomsen. Til Gríms Thomsen frá Grími Thomsen
framtíðarinnar. Eitthvað slíkt. Já, þetta með Gríms Thomsen tilraunina: Ég
klæddi mig upp sem hann, ég fann einhverjar myndir á netinu, og svo fann
ég föt við hæfi á flóamarkaði, París er frábær þegar það kemur að þessu. Ég
fór meira að segja í sleik við stelpuna sem seldi mér pípuhattinn, hún sagði
eitthvað á þá leið að ég ætti endilega að kaupa þennan hatt, hann færi mér svo
ósköp vel, ég sagði ég kaupi hann ef þú kyssir mig, hún sagði ok og ég ætlaði
bara að kyssa hana ósköp sakleysislega en þá laumaði hún tungunni uppí
mig. Þessar parísardömur! Ég ætla að hitta hana aftur næsta þriðjudag. Ég
bý upp á hanabjálka eins og Grímur, ég les ljóð eins og Grímur. Ég var í leik-
list í FB og ég fæ útrás fyrir leiklistarbakteríuna í mínu daglega lífi. Leiksvið
lífsins, það er mitt mottó, raunveruleikinn, hversdagurinn, að gæða hann
lífi. Atvinnuleikhús, fari það í rassgat. Maður lifir bara einu sinni og núna.
Hvers vegna ekki að lifa skemmtilega, lifa skemmtilegu og spennandi lífi?
Tja, það finnst mér. Faðir minn segir að ég sé glópur, að ég reisi skýjaborgir,
mamma spyr einatt hvort ég ætli bara ekki að fara að kenna? Kenna kenna.