Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 23
TMM 2014 · 3 23
Atli Bollason
Spor
Það gat líka orðið dimmt suður í löndum, og næturnar kaldar og hljóðar. Ef
þú staðnæmdist á kvöldgöngu og horfðir niður þröngt húsasund og lagðir við
hlustir mátti kannski heyra veikan þyt í kittkattbréfi sem skrapaði göturnar
eða skrjáf í sængurveri útum opinn glugga, en það var næstum einsog að
hlusta á grasið gróa: á endanum vissirðu ekki hvort hljóðin komu innan
úr höfðinu á þér, hvort þetta var heilinn að marra eða gormarnir í dýnu
ávaxtasalans. Á slíkum kvöldum brá máninn bláleitri birtu á húsaraðirnar
sem voru hver annarri líkar, hálfskakkar að sjá og ekki mjög reisulegar þótt
hér hafi verið hafst við í nokkur árhundruð, löguð súpa og horft á sjónvarp.
Hellusteinarnir endurvörpuðu tunglsljósinu enda máðir og gljáandi eftir
ágang milljón skóa, hver með sína sögu. Legðirðu lófann á steinana myndu
þeir eflaust ylja þér. Það mátti allavega ímynda sér það.
Á breiðustu götum bæjarins voru málmspor greipt í jörðina. Tveir sam-
síða teinar sem höfðu einhverntímann verið rennisléttir og gljáð einsog gull
en voru núna hrúðraðir og ryðbrúnir. Milli teinanna var örmjór skurður –
sjálf sporin, vart þumlungur að dýpt – þar sem hafði nú safnast fyrir drasl:
bjórtappar, kjúklingabein, drykkjarrör, plástrar. Á aðaltorginu komu sporin
svo saman í undurfallegu mynstri þar sem hver línan skar aðra og maður
þurfti að hafa sig allan við ef maður vildi ekki týnast, villast af leið og enda
kannski norður við bæjarhliðið eða í garðinum hjá bakaranum þótt stefnan
hafi verið niður að strönd og út í sjó eða bara að hlusta á öldurnar. Suma
haustmánuðina gat maður stolist upp í klukkuturninn áður en myrkrið
breiddi yfir hafið og bæinn og séð ofan frá hvernig sporin glitruðu gullin í
lækkandi sólinni. Þá líktust þau helst fíbónakkísku fiskineti sem við ímynd-
uðum okkur kannski að væri fullt af spriklandi sardínum. En sporvagnarnir
gengu ekki lengur. Þeir höfðu ferjað þorpsbúa bæjarendanna á milli í áratugi
áður en stríðið kom. Eða ‘skall á’ segir maður víst, einsog styrjöld sé loft-
steinn eða flóð eða einhver að detta og meiða sig. Þá breyttist víst allt. Samt
eltum við sporin, við gengum þau á enda og lærðum leiðir vagnanna þartil
við kunnum þær utanað einsog þjóðsönginn.
Einn daginn höfðum við gengið lengi meðfram sporunum sem lágu frá
lystigarðinum norðvestast í hlíðinni, undir gamla virkisveggnum og gegnum
verkamannahverfin í vesturbænum, næstum niður að verbúðunum áður en