Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 63
A l d u r
TMM 2014 · 3 63
grind, sem var eins og stálbeinagrind. Stoðgrindin boraði sig inn í alla
vöðva konunnar sem var ævaforn. Án tækisins hefði hún varla getað hreyft
fingurna. Vírar lágu úr grindinni inn í tengingar sem voru boltaðar við
höfuð kúpuna. Vökvi rann eftir pípum og stálpinnar ýttu við útlimunum.
Konan starði á sjónvarpsskjá og andaði í takt við grindina. Hljóðið minnti
á stíflað niðurfall. Spelka hélt höfðinu uppréttu. Hjarir á hálslið stoð-
grindarinnar byrjuðu að ískra og höfuð konunnar snérist. Hún hafði orðið
vör við Pálínu. Rafmagnsmótorinn gaf frá sér suð um leið og hún snéri
sér við. Tóm þokukennd augun störðu á gestinn. Líflaust bros færðist yfir
andlitið. Gamla konan hafði greinilega ekki fengið gest í langan tíma. Hún
reyndi að segja eitthvað en náði bara að mynda torkennilegt kokhljóð. Tækið
rúllaði af stað á fjórum hjólum, sem voru negld við hvorn fót. Heyra mátti
inniskó gömlu konunnar dragast eftir plastgólfinu. Pálína ætlaði ekki að láta
króa sig af og hraðaði sér upp næsta stiga.
Palli var á þriðju hæð. Pálína stökk upp tröppurnar og fann gæsahúð
hríslast um bakið. Þessi vélrænu gamalmenni minntu á martraðaverur. Von-
andi yrðu ekki fleiri á vegi hennar.
Pálína gægðist inn á hæðina og sá engan á ferli. Hún læddist eftir gang-
inum. Hvert herbergi var hurðarlaust með rúmföstum íbúa. Gervilungu og
vélahjörtu héldu fólkinu á lífi. Tækin gáfu frá sér smelli og dynki sem berg-
máluðu um rýmið. Flestir sváfu en aðrir kölluðu í átt að gestinum sem tiplaði
fram hjá dyrunum.
„Stefán minn, ert þetta þú Stefán minn? Mikið er langt síðan að þú hefur
komið.“
„Guðríður, eru strax komin jól? Ég er ekki búin að hafa mig til.“
„Talaðu við mig, enginn hefur talað við mig svo lengi.“
„Ég get þetta ekki, lofaðu mér bara að deyja.“
Allir höfðu sömu tilfinningalausu gerviröddina. Pálína jók hraðann í
hvert sinn sem einhver kallaði og fann augun fyllast af tárum. Að lokum var
hún farin að hlaupa. Auðvitað heimsótti enginn þetta fólk þegar þetta var
upp lifunin. Þessi stofnun var ekkert annað en draugahús.
Inni í herbergi Palla afa gat hún lokað að sér. Glerhurð rann úr ósýnilegri
rauf í dyrunum. Pálína lagði ennið upp að köldu glerinu. Raddirnar voru
þagnaðar.
„Ertu komin, elskan mín?“ sagði Palli með þessari ógeðslegu tölvurödd
sem allir sjúklingarnir deildu. „Ég átti ekki von á þér fyrr en eftir viku. Eða
er kannski liðin vika? Það er erfitt að vita hvað tímanum líður hérna.“
Pálína leit á Palla og brosti. Hann var varla annað en skinn og bein.
Hundruð gúmmíslanga stungust inn í líkamann og héldu honum á lífi. Hún
heyrði lágt andvarp. Röddin var löngu horfin en tölvan átti auðvelt með að
þýða hvíslið.
„Mundirðu eftir honum?“ spurði Palli.
„Já,“ svaraði Pálína. Hún lagði höndina upp að munninum en þar var bara