Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 53
E i g i n m a ð u r i n n o g b r ó ð i r h a n s
TMM 2014 · 3 53
unum kvöldið eftir. Annað fólk hefði látið það ógert. Ekki Ella. Það var ekki
hennar stíll. Henni hugnaðist aldrei þögnin sem umlék bræðurna og alla
þeirra fjölskyldu. Hún og hennar fólk talaði um hlutina og reifst hástöfum og
sagði allt sem segja þurfti hvert við annað. Jóhann þoldi ekki hvernig fólkið
hennar reifst fyrir framan hvern sem var, alltaf um sömu hlutina. Hann sá
ekki tilganginn í því að eyða svona miklum hávaða og orku í að velta sér upp
úr hlutum sem voru í eðli sínu óbreytanlegir. Engu að síður hafði fokið í
hann þegar Ella sagði honum frá samtali hennar og Bödda.
Þau rifust heiftarlega það kvöld, öskruðu hvort á annað, óhrædd við að
sleppa af sér beislinu þar sem börnin voru í gistingu hjá foreldrum hennar.
Kvöldið hafði átt að vera bara þau tvö, með kertum og góðu víni og mat,
en Jóhann hafði rokið út í göngutúr. Það var hans venja þegar hann þurfti
að ná sér niður. Þegar hann kom aftur var hún búin að opna vínflöskuna
og var byrjuð að elda, og orðalaust hóf hann að leggja á borðið og kveikja á
kertunum í löngu og mjóu kertastjökunum á borðstofuborðinu. Þau sátu og
borðuðu í þögn, unnu smátt og smátt á flöskunni og skiptust á að hella í glas
fyrir hvort annað. Að máltíð lokinni lagði hann höndina á mitt borðið, sneri
lófanum upp á hvítum dúknum, og hún tók um fingur hans. Hann gat aldrei
fundið orðin til að segja henni hve þakklátur hann var fyrir þennan mikla
styrk hennar, hvernig hún verndaði hann og börnin fyrir umheiminum. Í
rökkrinu í svefnherbergi þeirra lágu þau í rúminu og hann hvíldi höfuðið á
brjósti hennar og kúrði þétt upp að henni undir sænginni eins og lítið barn.
„Þú ert heppinn að hafa hana,“ sagði Böddi. „Hún er svo sterk. Þið passið
svo vel saman.“
„Já, ég veit,“ sagði Jóhann. „Þú og Maríón voruð góð saman, líka,“ sagði
hann en Böddi hristi bara hausinn.
„Nei, ekki eins og þið. Við höfðum aldrei einu sinni hist almennilega fyrr
en viku áður en við giftum okkur. Bara skrifast á, á netinu. Og svo líka talað
saman með vefmyndavél.“
Jóhann kinkaði kolli en reyndi að fela forvitni sína. Bróðir hans hafði
aldrei talað um hvernig hann og Maríón kynntust og hvað hafði farið þeim
á milli fyrir giftinguna. Jóhann hafði aldrei viljað spyrja heldur. Það voru
næstum tvö ár síðan Böddi hafði komið við eftir vinnu og hitt á Jóhann
einan heima. Ella í leikfimi og krakkarnir í tónlistarskólanum. Hann hafði
verið að skila af sér síðbúinni afmælisgjöf handa Jóa, stórum kassa sem
reyndist síðar vera stærðarinnar bílabraut sem eflaust hafði kostað sitt, og
á meðan þeir sátu við eldhúsborðið með kaffi hafði hann skyndilega látið
Jóhann vita af því að hann ætti kærustu sem hann hefði hitt á netinu og að
hann ætlaði að fara í heimsókn til hennar til Manilla á Filippseyjum. Jóhann
hafði varla vitað hvað hann ætti að segja og hafði sopið á kaffinu og sagt
„Jahérna“ og svo óskað bróður sínum til hamingju. Þegar Böddi kom aftur
mánuði seinna var hann búinn að gifta sig. Á Filippseyjum.
Þau höfðu verið tvístígandi fyrst, hann og Ella. Óviss um hver væri að