Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 30
A t l i B o l l a s o n
30 TMM 2014 · 3
rakna upp. En þarna voru engin fótspor svo greina mætti. Það var engin leið
að finna hann núna.
Sólin var að setjast meðan ég gekk áfram eftir stígnum og hún fékk
rykskýin sem ég þyrlaði upp til að glóa fallega, þau vörpuðu gegnsæjum
skuggum á götuna eitt andartak áður en þau leystust sundur og hurfu. Ég
hafði ekki gengið lengi þegar ég sá einhverja þúfu í grasinu sem vakti athygli
mína. Ég fór af stígnum og út á þurrt grasið sem stakk í fæturna. Það var
sérkennileg lykt í loftinu sem ég reyndi að átta mig á hvaðan kæmi. Þegar
ég kom nær sá ég að þetta var hundur. Hann lá grafkyrr með munninn
hálfopinn; tennurnar beraðar í stirðnaðri grettu. Það var á honum ryklag
svo feldurinn hvarf sjónum og dýrið fékk á sig óraunverulegan eintóna blæ
því örfínt rykið huldi alla skugga og misfellur. Útlimirnir voru beinstífir
og ögruðu þyngdaraflinu. Skorpin ásjóna hans minnti meira á vaxmynd en
hund sem var nokkurntímann af holdi og blóði. En svo sá ég maðkana. Til
að byrja með tók ég ekki eftir þeim því þeir voru eins á litinn og rykið en
svo varð ég var við hreyfinguna. Ég skynjaði hana fyrst ómeðvitað, svo hafði
ég óljósan ávæning af einhverskonar skriði eða flökti, dansi jafnvel, áður en
ég sá loks maðkana sjálfa þar sem þeir engdust um hljóðlaust einsog hver og
einn þeirra liði ónefnanlegar vítiskvalir. Og þá fyrst fann ég lyktina. Þegar
raunveruleiki þessa hálfrotnaða hunds varð mér ljós fylltust vit mín af nálykt
og ógleðin hvolfdist yfir mig á ný. Höndin seildist hugsunarlaust í vasann og
ég greip þéttingsfast utan um sporvagninn og strauk hann með þumlinum
um leið og ég reyndi að ná stjórn á önduninni. Ég gat ekki haft augun af
hundinum þótt mig langaði ekkert frekar en að hlaupa í burtu. Augu hans
læstu sér í mín og við störðum hvor á annan, hann handan eilífðarinnar en
ég fastur undir brennandi sólinni. Hún nálgaðist nú hafflötinn í fjarska og
bleikti allt sem fyrir geislum hennar varð.
Eftir nokkra stund gekk ég tilbaka, framhjá bekknum og samlokunni
og meðfram sporunum. Svo beygði ég til vinstri og fetaði mig inn um
kirkjugarðshliðið. Skuggar krossanna voru langir og skrælnuð blómin sem
lágu við sum leiðin virtust geta orðið að ryki og sópast burtu hvenær sem
var. Ég fór ekki langt inn í garðinn heldur hélt mig nærri veggnum og horfði
yfir krossana, legsteinana og grafhýsin næst miðjum garðinum. Eftir því
sem ég gekk lengra meðfram veggnum breyttust myndirnar sem skuggarnir
máluðu og það þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að sjá stytturnar hvarfla
augunum eða skilja að leggina og þá var maður í huganum kominn hálfa
leið að marserandi styttum sem arka um með alvæpni og steingera allt sem
fyrir þeim verður. Ég hristi slíka óra af mér og hélt út í horn þar sem ég lét
fallast á hnén, rétti úr fingrunum og stakk þeim ofan í þurra jörðina einsog
skóflu. Ég sleit rætur grasanna sundur og fann svalandi kulda jarðvegarins.
Það var þægilegt að finna moldina þrýsta sér undir neglurnar. Ég skóflaði
upp lúkufylli og réðst svo aftur á holuna sem iðaði nú af áður ósýnilegu
lífi; ánamaðkar og bjöllur af öllu tagi flúðu ýmist uppum þetta opna sár eða