Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 55
E i g i n m a ð u r i n n o g b r ó ð i r h a n s
TMM 2014 · 3 55
órótt er hann hlustaði á bróður sinn tala. Fjölskyldan hafði aldrei minnst
einu orði á það hvernig Böddi og Maríón höfðu hist. Hann hafði alltaf haldið
að það væri almenn kurteisi að vera ekki að ræða það. Honum kom í hug
hve oft hann hafði heyrt móður sína segja við fólk að sonur hennar hefði
kynnst konunni sinni þegar hann var í fríi og hvernig hún tók alltaf fram
að tengdadóttir hennar væri frá Manilla frekar en að segja að hún væri frá
Filippseyjum.
„Var það svoleiðis hjá Maríón? Að hún vildi komast í burtu?“ spurði hann,
og kom sjálfum sér á óvart með eigin hnýsni.
„Já, svona eiginlega,“ sagði bróðir hans. „Ekki svo slæmt samt. Hún bjó
ennþá hjá mömmu sinni og var enn ógift. Hún vildi komast burt og lifa sínu
eigin lífi. Vildi ekki vera að búa hjá mömmu sinni alltaf og sá ekki fram á að
giftast neinum þar sem hún var. Hún átti ekki fyrir því að kaupa sitt eigið
hús svona ein og það er strembið að leigja einsamall þarna. Mjög dýrt og ekki
margt að fá. Flestir vilja bara leigja pörum og fjölskyldum.“
„Svo hún ákvað bara að koma hingað í staðinn?“
„Já. Hún sagði að það hefði ekki skipt hana svo miklu máli hvert. Hún var
orðin leið á Cavites, fannst hún vera föst þar. Þetta er lítil borg hinum megin
við flóann frá Manilla. Þegar ég fór að heimsækja hana þá hittumst við í
Manilla og tókum svo ferjuna til Cavites. Hún var með einhverja frænku
með sér til að passa að ekkert gerðist eða eitthvað. Þegar við náðum loksins
að tala saman í friði fyrir frænkunni þá sagði hún að hún hugsaði um þetta
allt saman eins og það væri ævintýri. Að við værum að fara að upplifa
ævintýri saman.“
Hann þagnaði og leit á Jóhann.
„Við vissum hvað við vorum að gera,“ sagði hann. „Við vissum að við
værum ekki ástfangin, ekki ennþá. Við héldum að það myndi koma seinna.
Að saman myndum við rækta með okkur ást. Ég hitti fjölskylduna hennar.
Þau voru mjög gott fólk, öllsömul. Pabbi hennar er dáinn en ég talaði við
mömmu hennar. Hún spurði mikið út í vinnuna og íbúðina mína. Hvort
ég ætti bíl. Hún var að passa að ég gæti séð fyrir dóttur hennar, skilurðu?
Mamma hennar sagði mér að hún og pabbi Maríón hefðu gift sig að ósk fjöl-
skyldna þeirra. Þau þekktust næstum ekkert þegar þau giftust en ræktuðu
síðan með sér ást. Alveg eins og við ætluðum að gera.“
Eitthvað við það hvernig Böddi sagði „ræktað með sér ást“ hljómaði
skringilega í hans munni, og Jóhann áttaði sig á að hann var að endur-
taka eitthvað sem Maríón hafði sagt eða, sem var líklegra, eitthvað sem
móðir Maríón hafði sagt við þau og hafði endurómað í eyrum þeirra allt
hjónabandið. Orðin hljómuðu sorgmædd og örvæntingarfull. Uppfull af
hinstu von móðurinnar er hún horfði á dóttur sína hverfa á brott með
ókunnugum manni og varð að sitja eftir og vona það besta og reyna að sjá
fyrir sér bjarta framtíð fyrir dóttur sína og barnabörn í framandi landi langt
í burtu frá heimili og fjölskyldu.