Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 25
S p o r
TMM 2014 · 3 25
áttina til hans. Stafur úr gljápússuðum kirsuberjaviði hallaðist að bekknum
þar sem hálfetin samloka lá í bréfpoka. Hann virtist ekki taka eftir okkur.
Ég leit á Matthías og María leit á mig og Alexander góndi bara áfram. Við
vissum ekki hvort við værum að trufla ef við héldum áfram.
– Hann er klikkaður. Snarbilaður.
– Hvernig þá?
– Löngu eftir að vagnarnir voru hættir að ganga þá mætti hann samt
á skiptistöðina niðri í bæ á hverjum morgni og stimplaði sig inn. Sat svo
aleinn og þambaði kaffi allan daginn og hlustaði á útvarpið og beið eftir
að bjöllunni yrði hringt og það væru vaktaskipti. En auðvitað gerðist aldrei
neitt. Einn morguninn var búið að negla fyrir hurðina og gluggana en hann
hélt samt áfram að koma og borðaði nestið sitt á tröppunum í einkennis-
búningnum og beið bara einsog asni. Svo talaði einhver við hann, einhver
frá bænum eða sýslumanni eða eitthvað og þá hætti hann loksins að koma.
Þetta er rugludallur.
– Þú ert að plata.
– Nei. Þegiðu. Pabbi sagði mér þetta.
Þögn. Og þess á milli: Flugnasuð, fuglasöngur og másandi andardráttur
Alexanders í svækjunni.
Orðalaust gekk María aftur af stað, löturhægt. Hvað ertu að gera, hvíslaði
Matthías æstur á eftir henni. Hnésíður kjóllinn sveiflaðist einsog nýklipptur
hártoppurinn þegar hún leit yfirveguð um öxl án þess að svara. Enginn
grallarasvipur, engir prakkarastælar; hún horfði bara til baka eitt augnablik
og leið svo áfram einsog hún byggi yfir einhverri visku sem okkur skorti,
einhverri óskiljanlegri og örugglega kvenlegri fullvissu. Þessi mynd brenndi
sig í unga augnbotnana: María í sólleitum kjól með sprungna veggi kirkju-
garðsins á aðra höndina og aflíðandi hlíðina á hina, ólífutré á stangli og lauf-
græn gresjan sem hverfur í sjóðandi mistur og storkin rykský, svo vegurinn
sem hlykkjast niður að strönd og óendanlegur silfurblámi hafsins milli
tveggja sandbrúnna kletta, einsog sjóblautur fjársjóður milli sólbrúnna læra.
Og gamli sporvagnastjórinn einhversstaðar aftan við hana, úr fókus, líkastur
lekandi vaxmynd af sjálfum sér, útbrunnu kerti.
Hún gekk alveg að bekknum og tók varlega upp samlokuna sem þar lá um
leið og hún horfði stíft á manninn. Hún beið þess að hann sýndi einhver við-
brögð en það gerðist ekki neitt. Þá stakk hún brauðinu upp í sig og tók stóran
bita. Við sáum bara baksvipinn á henni, en meðan hún stóð þarna ímyndaði
ég mér að hún tyggði brauðið sviplaus í rólegheitum, merði saman brakandi
bagettuskorpu við tómata og ögn súra skinku og piparrótarsósu með háum
smjatthljóðum. Hún tuggði áfram og þegar maðurinn leit loks upp og sneri
höfðinu ofurlítið til að sjá framan í hana þá fletti hún kjólnum upp um
sig að framan með vinstri hendi og hrópaði oj perri!, grýtti afgangnum
af samlokunni á jörðina við fætur mannsins og kom hlaupandi til okkar,
skellihlæjandi. Við tókum öll til fótanna, María fremst og Alexander