Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 9
TMM 2014 · 3 9
„ A l l a r g ó ð a r b æ k u r f j a l l a u m …“
Áhrifavaldar
Þegar litið er um öxl er nánast ómögulegt að greina af hverju eða hvernig
aðrir hafa haft áhrif á ferlið og útkomuna – stundum skrifaði ég samkvæmt
reglum eigindlegrar rannsóknaraðferðafræði og nýtti mér þá viðtöl og
heimildir úr gömlum dagblöðum og bókum, en aðra daga lituðust skrifin
heldur af of mikilli kaffidrykkju (ég verð æst og hugurinn fer á flug) og
áhrifum frá Facebookfærslum eða bókum á borð við Dagbækur Berts sem
ég held mikið upp á, ásamt bókunum um Elías eftir Auði Haralds, Peði á
plánetunni jörð eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, Ævintýri góða dátans Svejk
eftir Jaroslav Hašek (sjá síðar), ásamt tónlist tíunda áratugarins, og þá sér-
staklega hljómsveitarinnar Nirvana. Þegar allt þetta kom saman leið mér
stundum líkt og ég væri „undir áhrifum“ og ég er ekki viss um að slíku
„ástandi“ sé hægt að gera góð skil í grein sem þessari. Þá myndi ég frekar
halda að skáldskapurinn sjálfur komist nær því. En hér verður þó engu að
síður gerð tilraun til þess að greina nokkra áhrifavalda og þræði.
Kurt Vonnegut og Sláturhús fimm
Sláturhús fimm er líklegast þekktasta verk Kurts Vonnegut. Bókin kom fyrst
út árið 1969 í Bandaríkjunum en Vonnegut var sjálfur fæddur 11. nóvember
árið 1922 í Indianapolis. Og eins og margir karlmenn af hans kynslóð
Bandaríkjamanna var hann kvaddur í herinn til að heyja stríð í Evrópu, þar
sem hann barðist við Þjóðverja en sjálfur var hann af þýskum ættum. Um
þetta fjallar meðal annars Sláturhús fimm. Barnakrossferðin. Skyldudans við
dauðann – eins og bókin heitir þegar allir undirtitlarnir eru skráðir.
Eftir stríðið bjó Vonnegut yfir þeirri undarlegu reynslu að hafa lifað af
mannskæðar loftárásir síns eigin herliðs, þar sem hann endaði sem stríðs-
fangi Þjóðverja í borginni Dresden, en frá þrettánda til fimmtánda febrúar
árið 1945 réðust Bandamenn á borgina með fjórum eldsprengjuloftárásum
og lögðu hana í rúst. Talið er að tuttugu og fimm þúsund Dresden-búar
hafi látið lífið í árásunum sem voru „tilgangslausar með öllu“ þar sem
Dresden var ekki hernaðarlega mikilvægt skotmark í stríðinu. Skotmarkið
var einfaldlega óbreyttir borgarar.7 Árásirnar má þá einnig sjá sem hefnd
Englendinga fyrir loftárásir Þjóðverja á England. En Vonnegut komst lífs
af ólíkt mörgum öðrum þennan daginn, ásamt hinum stríðsföngunum og
þýsku fangavörðunum sem gættu þeirra. Orsökin var sú að föngunum hafði
verið haldið í sláturhúsi neðanjarðar og lýsir Vonnegut sláturhúsinu með
þessum orðum í bókinni:
Það hafði verið reist fyrir svín sem biðu slátrunar. … Það var stór tölustafur yfir
dyrunum á húsinu. Það var talan fimm. Áður en Ameríkönunum var leyft að fara
inn, sagði einn vörðurinn, sem kunni ensku, að þeir yrðu að læra heimilisfangið sitt