Tímarit Máls og menningar - 01.09.2014, Blaðsíða 57
E i g i n m a ð u r i n n o g b r ó ð i r h a n s
TMM 2014 · 3 57
þeim hugsunum viljandi frá sér. Í staðinn reyndi hann að hugsa um Bödda
og um þá mörgu smáu ósigra sem Böddi hafði upplifað í sínu lífi. Hvernig
honum hafði aldrei tekist að finna þá hluti í lífinu sem honum hafði verið
kennt að meta sem barn.
Eins og svo oft áður var hans varla þörf í samtalinu. Á meðan Böddi talaði
kinkaði hann kolli og játti þegar við átti. Ísskápshurðin á bak við Bödda
var þakin í miðum og bæklingum og ljósmyndum sem var haldið uppi
með skrautlegum ísskápsseglum. Hvorki Maríón né Böddi voru á neinni
myndinni. Þær hlutu að hafa verið sendar í pósti frá ættingjum hennar
heima á Filippseyjum. Það voru myndir af nýfæddum börnum í skírnar-
kjólum og litlum krökkum í samkvæmisklæðum sem héldust í hendur. Það
voru líka myndir sem höfðu verið teknar í brúðkaupum eða einhverjum
slíkum viðburðum, þar sem karlarnir voru í stífpressuðum hvítum skyrtum
og konurnar í litríkum hátíðarklæðnaði, skreyttum flóknum útsaumuðum
munstrum í gylltum þræði. Þau brostu í átt að myndavélinni, brosin glaðvær
og frjáls. Opinmynnt eins og ljósaugað hefði kiprast saman rétt í því að þau
voru að skella upp úr.
„Ég hélt að þú hefðir sagt að allt dótið hennar væri farið,“ sagði hann.
Böddi var búinn með söguna sína og sat þögull með báðar hendur um
hálftóman kaffibollann.
„Ha?“ sagði hann.
Það var erfitt fyrir Jóhann að endurtaka spurninguna sem hafði fallið svo
skyndilega af vörum hans að hann hafði varla áttað sig á að hann væri að tala
upphátt. Nú endurtók hann sig stamandi og muldrandi.
„Dótið hennar. Ég hélt að þú hefðir sagt að hún hefði tekið allt dótið sitt. Í
gær þegar ég talaði við þig í símann.“
„Það er eitthvað af dóti farið.“
„Skildi hún eftir allar fjölskyldumyndirnar sínar?“
Böddi starði á hann. Andlitið sem hafði verið svo opið og glaðleitt á meðan
hann sagði söguna af sér og Maríón lokaðist alveg.
„Líklega ætlar hún að senda eftir dótinu sínu seinna eða eitthvað,“ sagði
Jóhann, hjálparlaus í þögninni sem stafaði af Bödda. „Er það ekki?“
Böddi kinkaði kolli, hægt.
„Jú, ætli það ekki.“
Eitthvað hafði breyst í litla eldhúsinu. Það var að verða dimmt úti og
skugg arnir á eldhússkápunum höfðu sameinast grámyglulegri dimmunni.
Jóhann saup aftur á kaffinu en það var orðið kalt. Hann kláraði engu að síður
úr bollanum og lét ekki á neinu bera.
„Jæja, ég þarf víst að fara að drífa mig,“ sagði hann.
„Gaman að þú gast kíkt í heimsókn,“ sagði Böddi.
Þeir stóðu báðir upp og föðmuðust klunnalega við borðsendann. Þegar
þeir losuðu takið forðuðust þeir að horfast í augu. Böddi fylgdi honum til
dyra. Jóhann þræddi á sig jakkann og vafði trefli um hálsinn. Hann hafði