Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Side 78
78 TMM 2017 · 2
Ásdís R. Magnúsdóttir
Maður á strönd og
leitin að jafnvægi
Um Útlendinginn eftir Albert Camus og
Meursault, contre-enquête eftir Kamel Daoud
Útlendingurinn eftir fransk-alsírska rithöfundinn Albert Camus gerist í
Algeirsborg þegar Alsír var frönsk nýlenda og fjallar um mann að nafni
Meursault sem skýtur mann – Araba – á sólarströnd og er dæmdur til dauða,
þó ekki fyrir morðið heldur fyrir að hafa fengið sér kaffi og sígarettu við kistu
látinnar móður sinnar. Bókin kom út í París árið 1942 og allar götur síðan
hefur hún vakið viðbrögð og er ein víðlesnasta skáldsaga franskra bókmennta
fyrr og síðar. Hún hefur verið þýdd á ríflega sextíu tungumál og kom fyrst
út á íslensku einu ári eftir sviplegan dauða Camus, sem lést í bílslysi nálægt
bænum Lourmarin í Frakklandi í janúar 1960.1 Sagan þykir aðgengileg, hún
er stutt og auðlesin miðað við mörg önnur stórvirki heimsbókmenntanna
og er því gjarnan á leslistum franskra ungmenna og frönskunema víða um
heim.
Viðtökur verksins í Frakklandi voru blendnar en einu ári eftir útgáfu þess
skrifaði franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre fræga
grein um Útlendinginn þar sem hann lýsti því meðal annars yfir að Camus
væri mun betri rithöfundur en heimspekingur.2 Um verkið spunnust nokkrar
umræður þar sem ýmsir lögðu orð í belg, þar á meðal höfundurinn sjálfur.
Árið 1955 fylgdi hann bandarískri útgáfu verksins úr hlaði með inngangi
en hann má sjá sem eins konar lykil að verkinu þótt ekki væru allir ánægðir
með skýringar Camus á aðalpersónunni. Og nú, rúmlega sjötíu árum síðar,
er enn verið að skrifa um Útlendinginn, hann er lesinn og túlkaður af leikum
sem lærðum, endurútgefinn og endurþýddur af nýjum kynslóðum þýðenda
bæði hér á landi og erlendis. Á aldarafmæli Camus, árið 2013, sendi franska
bókaforlagið Gallimard frá sér Útlendinginn í teiknimyndasögu Jacques
Ferrandez í sérstakri ritröð sem einkum er ætluð yngri kynslóðinni en eldri
lesendur geta ekki síður notið, og vegleg myndskreytt útgáfa af sögunni
kom út hjá sama útgefanda með myndum eftir argentíska teiknarann José
Muños.3 Ári síðar var nýrri enskri þýðingu á Útlendingnum vel fagnað, ekki
vegna þess að eldri þýðingarnar væru lélegar heldur vegna þess að hverri
þýðingu fylgir ný sýn á verkið.4 Enn virðist því vera hægt að segja eitthvað