Hugur - 01.01.2018, Qupperneq 7
Hugur | 29. ár, 2018 | s. 7–14
Afstæðishyggja, ágreiningur og
amerísk heimspeki
Finnur Dellsén ræðir við Mariu Baghramian
Maria Baghramian er prófessor í bandarískri heimspeki við University College Dublin
á Írlandi. Hún er einn helsti sérfræðingur heims á sviði afstæðishyggju og er bók henn-
ar Relativism (London: Routledge, 2004) ein sú víðlesnasta sem til er um þetta efni.
Baghramian er einnig sérfræðingur á sviði bandarískrar heimspeki, bæði pragmatisma
og heimspekikenninga 20. aldar heimspekinga á borð við Donald Davidson og Hilary
Putnam. Á undanförnum árum hefur Baghramian fengist við heimspekilegar spurn-
ingar sem snúa að ágreiningi innan vísinda og traust á vísindum, meðal annars í
verkefninu When Experts Disagree. Sá sem hér skrifar, Finnur Dellsén, var nýdokt-
or í því verkefni um tíma ásamt öðrum íslenskum heimspekingi, Elmari Geir Unn-
steinssyni. Eftirfarandi viðtal veitir innsýn í merkilegan og óvenjulegan starfsferil
Baghramian og helstu áhugamál hennar innan heimspekinnar.
Sagt er að Immanuel Kant hafi aldrei ferðast lengra en 10 mílur frá heimabæ sínum,
Königsberg í Þýskalandi. Nú á dögum eru flestir starfandi heimspekingar ívið víðför-
ulli, en það vekur samt eftirtekt hvað þú hefur komið víða við á ferli þínum: Þú ert
prófessor í amerískri heimspeki, þú býrð og starfar á Írlandi, þú fæddist í Íran, foreldrar
þínir eru armenskir, og þú hefur lagt mikið af mörkum til heimspekiiðkunar í Kína. En
hvernig stendur á því að Armeni frá Íran tók upp á því að læra heimspeki á Írlandi?
Satt að segja var það nauðsynin sem rak mig til Írlands fremur en áhuginn, en ég
ákvað svo að setjast þar að og hef búið á Írlandi í rúma þrjá áratugi. Ég fór fyrst í
nám við Háskólann í Teheran og lærði svo í Evrópu um tíma, en svo sneri ég fljót-
lega aftur til Teheran árið 1978 þegar uppreisnin gegn klerkastjórninni var að ná
flugi. Líkt og mörg önnur vestræn og menntuð ungmenni var ég á móti valdboðs-
stjórn klerkaveldisins og tók þátt í mótmælunum sem geisuðu um allt land frá og
með sumrinu 1978. Eins og margir vinir mínir og samnemendur hafði ég bundið
Hugur 2018meðoverride.indd 7 24-Jul-18 12:21:20