Hugur - 01.01.2018, Blaðsíða 37
Til varnar hugsmíðahyggju 37
Í því sem hér fer á eftir rökstyð ég að hugsmíðahyggja feli í sér mikilvæg sann-
indi um félagslegan veruleika og að rannsakendur geti nýtt sér þau, án þess að
fallast á langsóttar kenningar um að allur veruleikinn sé huglægur eða að ekki sé
kostur á hlutlægri þekkingu. Ég reyni, nánar tiltekið, að sýna fram á eftirfarandi:
a) Við höfum góðar ástæður til að fallast í senn á verufræðilega hug-
smíðahyggju um félagslegan veruleika og þekkingarfræðilega hug-
smíðahyggju um alla vísindalega þekkingu.
b) Verufræðileg hugsmíðahyggja um félagslegan veruleika er óháð
frumspekilegum kenningum um eðli alls veruleika, eins og efn-
ishyggju eða hughyggju.
c) Þekkingarfræðileg hugsmíðahyggja jafngildir ekki afstæðishyggju og
útilokar ekki að kostur sé á hlutlægri þekkingu.
Þessar niðurstöður mínar samrýmast gagnrýninni hluthyggju og eru um margt
líkar þeirri vísindaheimspeki sem Krauss, Hammersley og Maxwell halda fram.20
Ég nota orðið „afstæðishyggja“ um þá skoðun að sama fullyrðing geti verið
bókstaflega sönn fyrir einn mann en ósönn fyrir annan og það eins þótt hún sé
skýrð til hlítar. Samkvæmt þessu leiðir það ekki til afstæðishyggju þótt einn mað-
ur segi, með sanni, að það sé rigning og annað maður segi, með sanni, að það sé
úrkomulaust, nema þeir séu staddir á sama stað á sama tíma. Fullyrðingar þeirra
um úrkomu og úrkomuleysi hætta að stangast á ef þær eru skýrðar til hlítar þannig
að annar meini að það rigni á Hellu og hinn að það sé úrkomulaust á Hvolsvelli.
Það er hins vegar afstæðishyggja að álíta að það sé satt meðal náttúrufræðinga að
aukning koltvísýrings í andrúmslofti verði til þess að hitastig á jörðinni hækki
en sama fullyrðing sé ósönn ef hún er sögð í hópi fólks sem ekki tekur mark á
raunvísindum. Þeir sem hafna afstæðishyggju líta svo á að ef þessir tveir hópar
manna eru ósammála, um áhrif aukins koltvísýrings, þá hafi að minnsta kosti
annar þeirra rangt fyrir sér.
Þegar ég tala um hlutlæga þekkingu á ég við þekkingu sem maður hefur og
aðrir menn geta sannreynt eða staðfest. Hún gildir fyrir alla menn óháð hugarfari
þeirra og hugarástandi. Þegar ég tala um hlutlægan veruleika á ég við hluti og fyr-
irbæri sem eru til óháð því hvað við hugsum og höldum. Þetta eru losaralegar og
ófullkomnar skilgreiningar, enda reyni ég að orða það sem ég segi um hlutlægan
veruleika og hlutlæga þekkingu nógu almennt til að niðurstöður mínar velti sem
minnst á tilteknum kenningum um skilsmun þess huglæga og hlutlæga.21
20 Krauss 2005, Hammersley 2008 og Maxwell 2012.
21 Ég bendi lesendum, sem vilja dýpri umfjöllun um greinarmun þess huglæga og þess hlutlæga, á
skrif Eyju Margrétar Brynjarsdóttur 2004, 2008.
Hugur 2018meðoverride.indd 37 24-Jul-18 12:21:22