Hugur - 01.01.2018, Blaðsíða 117
Eru stjórnmál í eðli sínu ósiðleg? 117
haldi fyrir sérstökum viðmiðum sem eiga eingöngu við um ákveðin störf. Svo
dæmi sé tekið veitir samfélagslegt hlutverk og tilgangur fjölmiðlunar blaða- og
fréttafólki siðferðilega heimild til þess að nýta í starfi stolnar upplýsingar og neita
að gefa upp heimildarmenn, þrátt fyrir að samkvæmt almennu og hversdagslegu
siðferði sé rangt að gerast vísvitandi þjófsnautur og rétt að veita eiganda aðstoð
við að hafa upp á því sem stolið hefur verið frá honum. Sömuleiðis getur trúnað-
arskylda lögmanns við skjólstæðing krafist þess að hann greini ekki frá lögbrotum
sem honum bæri annars almenn skylda til að upplýsa um. Lögregla hefur til-
teknar heimildir til valdbeitingar undir ákveðnum kringumstæðum, og svo mætti
lengi telja. Sérstök siðferðisviðmið innan starfsgreina geta þannig, með vísun í
hlutverkabundnar skyldur, réttlætt og jafnvel krafist breytni sem utan starfsvett-
vangsins teldist siðferðilega röng eða ámælisverð.
Ef stjórnmál eru starfsgrein má með svipuðum hætti búast við að þau hafi sín
eigin siðferðisviðmið, sem draga dám af því út á hvað stjórnmálin ganga á end-
anum – hvert sé samfélagslegt hlutverk þeirra og tilgangur. En eftir því sem það
viðhorf verður áleitnara að stjórnmálin hafi ekki annað hlutverk eða tilgang en að
útkljá það með einhverjum ráðum hverjir skuli ráða – þ.e. að stjórnmál séu einber
valdabarátta – þá eykst um leið sú hætta að hið sérstaka siðferði stjórnmálanna
verði einfaldlega siðferðilegt tómarúm. Allt sé leyfilegt „inni í hringnum“ líkt
og í hnefaleikum, sem augljóslega lúta öðrum viðmiðum um mannleg samskipti
en almennt gilda í samfélaginu, þó svo að vissulega gildi þar einhverjar reglur
og siðferðisviðmið, að svo miklu leyti sem um íþrótt er að ræða en ekki óheft
slagsmál. Réttlætingin fyrir afnámi siðferðisviðmiða á sviði stjórnmála væri þá
sú að einungis þannig fái stjórnmálin að njóta sín sem valdabarátta og sinna sínu
sérstaka hlutverki. Rökin væru á þá leið að rétt eins og hnefaleikar væru ekki
hnefaleikar ef ekki mætti kýla, þá væru stjórnmál ekki stjórnmál ef ekki mætti
beita klækjum og blekkingum. Innri markmið og rökvísi stjórnmálanna krefðist
þannig afnáms venjulegra siðgæðislögmála.
Ef við lítum svo á að stjórnmál séu „ekkert annað en valdabarátta, ekkert annað
en hrossakaup, ekkert annað en valdastríð og valdaleikur“,19 þá kann tómhyggja
um siðferði í stjórnmálum vissulega að vera rökrétt framhald. Þetta á við ef orðin
„ekkert annað“ vísa til þess að engin gildi önnur en þau sem eiga rætur í innri
markmiðum valdabaráttunnar séu viðeigandi grundvöllur mats á því hvað sé gott
eða æskilegt á vettvangi stjórnmála. En þessi hugmynd, um stjórnmál sem ein-
bera valdabaráttu, er langt frá því að vera nauðsynlegur eða eðlilegur fylgifiskur
þess að líta á stjórnmál sem starfsgrein og einnig langt frá því að vera trúverð-
ugt svar við því hver sé samfélagslegur tilgangur stjórnmála. Ekki er víst að það
bitnaði sérstaklega á siðferði eða trausti á stjórnmálum þótt litið yrði á stjórn-
mál sem starfsgrein, svo framarlega sem markmið og gildi stjórnmála væru ekki
talin einskorðast við valdabaráttuna. Þvert á móti gæti slíku viðhorfi fylgt krafa
til stjórnmálamanna um sérstaka siðferðilega ábyrgð, hliðstæð við siðferðilegar
kröfur til fagstétta, sem sífellt þurfa að sýna fram á að þær verðskuldi það traust
19 Páll Skúlason 1987: 369.
Hugur 2018meðoverride.indd 117 24-Jul-18 12:21:27