Hugur - 01.01.2018, Blaðsíða 46
46 Atli Harðarson
kjarnorkustyrjaldar á líf okkar velti algerlega á því hvað við hugsum og höldum
um slík efni? Ég átta mig ekki á hvernig hugsmíðahyggjumenn um allan veruleik-
ann geta svarað, af ábyrgð og heilindum, ef þeir eru spurðir hvort ekki sé hægt að
gera kjarnorkuvopn skaðlaus með því að hugsa á öðrum nótum um orku, geislun
og kjarnahvörf. (Ástæðan fyrir því að kjarnorkuvopn eru skelfileg ógn, og það ætti
að eyða þeim, er að þau geta drepið allt mannkyn óháð því hvað við hugsum og
höldum.)
Það er ef til vill ekki í tísku, og ef til vill ekki stundað, að ræða um fyrirbæri eins
og landamæri og peninga sem félagslega smíð. Þau ráðast með of augljósum hætti
af því sem fólk tekur mark á til að það sé efni í bitastæða heimspeki. En ég get
samt illa varist þeirri hugsun að það sé tímabært að menn geri sér betur ljóst að
landamæri og peningar eiga tilveru sína undir því að við tökum mark á pólitísk-
um yfirlýsingum og valdsorðaskaki. (Raunar var eðli peninga breytt með talsvert
afgerandi hætti fyrir næstum hálfri öld síðan þegar bandarísk yfirvöld lýstu því
yfir að dalurinn jafngilti ekki lengur tilteknu magni af gulli.) Tugmilljónir flótta-
manna, og skuldir sem eru að sliga heil samfélög, eru að hluta til afleiðingar af
staðreyndum um landamæri og peninga: staðreyndum sem eru eins og þær eru
vegna þess að fólk hugsar og talar með tilteknum hætti.
Ég hef nú tilgreint ástæður til að fallast á verufræðilega hugsmíðahyggju um
félagslegan veruleika. Ég hef einnig rökstutt að þessar ástæður séu óháðar frum-
spekilegum kenningum eins og hughyggju og efnishyggju sem fjalla um eðli alls
veruleika. Ég á enn eftir að útskýra hvers vegna ég er einnig fylgjandi þekkingar-
fræðilegri hugsmíðahyggju.
Kenningar, líkön, kort og lýsingar
Hammersley, sem ég nefndi í inngangi þessarar greinar, segir í bók sinni um
eigindlegar rannsóknaraðferðir að hugsmíðahyggja um þekkingu sé að hluta til
sjálfsögð sannindi, því sérhver greinargerð fyrir veruleikanum sé búin til af fólki
og styðjist við félagslegar hefðir. Hann rökstyður með sannfærandi hætti, eftir
því sem ég best fæ séð, að þetta gefi ekkert tilefni til afstæðishyggju eða full-
yrðinga um að tvær greinargerðir sem eru í mótsögn hvor við aðra geti báðar
verið sannar.42 Maxwell, sem einnig kom við sögu í inngangi, heldur líka fram
þekkingarfræðilegri hugsmíðahyggju og færir rök að því að hún útiloki ekki að
þekking okkar sé hlutlæg. Um þetta segir hann meðal annars að við trúum því
að jörðin hafi verið hnöttótt og snúist um sólina löngu áður en menn gerðu sér
nokkra grein fyrir því. Hann nefnir líka að flest okkar trúi því að lofthiti á jörðinni
sé að hækka og það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir mannkynið, og það eins
þótt fólk neiti að trúa því. Það eru einfaldlega til hlutlæg sannindi um náttúruna
og þessi sannindi velta á öðru en því hvað fólk hugsar og heldur. Maxwell bætir
því svo við að þekking okkar á veröldinni sé aldrei fullkomin, vafalaus eða alger.43
42 Hammersley 2008.
43 Maxwell 2012: vii.
Hugur 2018meðoverride.indd 46 24-Jul-18 12:21:23