Hugur - 01.01.2018, Blaðsíða 62
Hugur | 29. ár, 2018 | s. 62–86
Stefán Snævarr
Hin póetíska rökræðusiðfræði1
Einhverju sinni söng Megas trúbadúr um mannúðarmálfræði.2 Ekki var þess
getið hvers eðlis þessi fræði væru. En svo vill til að heitið mannúðarmálfræði
á ágætlega við kenningar þýsku heimspekinganna Karls-Ottos Apel og Jürgens
Habermas.3 Að þeirra hyggju má finna frjóanga mannúðar í boðskiptum manna
en boðskiptin telja þeir burðarás tungunnar. Þessi mannúð málsins birtist helst
í því sem þeir telja vera hinn siðferðilega eða siðtengda þátt boðskipta. Kenning
þeirra um þennan þátt kallast „rökræðusiðfræði“ eða „boðskiptasiðfræði“, jafnvel
„samræðusiðfræði“. Kenningin er hvort tveggja siðspekileg (e. meta-ethical) og
siðferðilega boðandi, er í senn lýsing á meintum grundvelli siðferðisins og ákall
um að hlýða tilteknum siðaboðum.
Ég mun verja meginhluta þessarar greinar í að útlista, endurgera og gagnrýna
þessa speki. En fyrst hyggst ég kynna stuttlega skyldusiðfræði Kants, einkamáls-
rök Wittgensteins og málgjörðarspekina (e. speech act theory). Enda má segja að
rökræðusiðfræðin sé að nokkru marki sambræðsla þessara þriggja kenninga. Þá
sný ég mér að kenningum Apels og Habermas um boðskipti og siðgildi þeirra,
ásamt stuttri kynningu á intersúbjektífisma (samhuglægnishyggju) í fræðum
þeirra félaga.4 Næst á dagskrá er rökræðusiðfræðin sjálf með nokkuð mikilli
áherslu á útgáfu Apels af henni.5 Við munum sjá hinn mikla kantverska þátt í
rökræðusiðfræðinni sem þó er takmarkaður af leikslokaþætti. Rétt eins og sið-
fræði Kants einkennist rökræðusiðfræðin af gallharðri skynsemishyggju um sið-
ferði. En hún setur hið samhuglæga í brennidepil, ekki hið huglæga eins og Kant
gerði. Boðskipti og samræður koma í stað íhugunar hins einangraða einstaklings í
1 Stefáni Erlendssyni, ritrýni og ritstjóra Hugar eru þakkaðar gagnlegar ábendingar.
2 Textann má lesa í Megas 2012: 133–134.
3 Ég kynnti hugmyndina um mannúðarmálfræðina fyrst í grein sem ég skrifaði fyrir margt löngu.
Stefán 2004: 75–86.
4 Ég nota alþjóðaorðin „intersúbjektífismi“ og „intersúbjektífistar“ fremur en hin óþjálu íslensku
orð „samhuglægnishyggja“ og „samhuglægnissinnar“.
5 Apel er upphafsmaður rökræðusiðfræðinnar en oft er talað eins og hún sé sköpunarverk Ha-
bermas. T.d. nefnir Vilhjálmur Árnason ekki Apel í kynningu sinni á rökræðusiðfræðinni og
leggur litla áherslu á málspekigrunn hennar (Vilhjálmur Árnason 2008: 329–373). Úr því verður
reynt að bæta í þessari grein. Um leið skal mælt með kynningu Vilhjálms á rökræðusiðfræði
Habermas (Vilhjálmur Árnason 2008: 329–373).
Hugur 2018meðoverride.indd 62 24-Jul-18 12:21:24