Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Side 34
34
valdi taugahræringu með því að fella hinar pósitívt hlöðnu
efniseindir úr hástöðu sinni og hvíldarástandi niður í aðra
lægri. Þannig berist hræring þessi eftir endilangri taug,
unz komið sé að taugatengslum yfir í sjálfar heilafrum-
urnar, eina eða fleiri. En þar valdi rafeindirnar einhvers-
konar innriti (engrammi), er þá þegar birtist sem
skynjun (præsentation) af því, sem fyrir hefir borið,
en geymist síðan sem minnisspor (residuum) til næsta
máls, er eitthvað svipað kann að bera fyrir. En þá glæð-
ast minnissporin, eitt eða fleiri, að nýju og valda annað
hvort meira eða minna ógreinilegum k e n n s 1 u m eða
greinilegri endurminningu (repræsentation) um
það, sem áður hefir borið fyrir.
Eitthvað á þessa leið verða menn að hugsa sér sam-
band anda og efnis, andann sem orkuþrungið starf, er
skráir innrit sín í heilafrumurnar af því, sem fyrir ber, en
efnið sem tregt, en varðveitandi efni. En samkvæmt þessu
verða andi og efni nokkurs konar andfætlingar, andinn,
sem skráir áhrifin utan frá í sjálfar heilafrumurnar og
fær þær til að blossa upp til meðvitundar, starfs og fram-
kvæmda, en efnið, sem varðveitir innritin og minnis-
sporin, unz þau glæðast að nýju í meira eða minna ljósri
endurminningu um það, sem áður hefir fyrir komið. Kem-
ur þetta að vissu leyti heim við þau ummæli Jeans, þar
sem hann segir, að „efnið eins og leysist upp í sköpun
og tjáningu andans“.
Sjálf tilgangsstarfsemin hefst með því, að fjarskyn
eins og þefjan, heyrn og sjón taka að myndast, og lífver-
urnar fara að fara eftir þeim. Þannig þræða karlfiðrild-
in „ilmspor“ kvenflugunnar langar leiðir, þótt þau hvorki
heyri hana né sjái né hafi nokkra hugmynd um hana.
Önnur æðri dýr skynja ýmist heilla- eða hættuboða í því,
sem þau heyra, fyrir þau geðfelldu eða ógeðfelldu kennsl,
er fyrri skynjanir hafa látið eftir sig, og gera þá annað-
hvort að renna sér á hljóðið, ef það er heillaboði, ásta-kall
eða annað, eða þá að flýja undan því, ef það er ógeðfelld-
ur hættuboði. En dýr, sem aðallega njóta augna sinna,
fara að fá greinilegar skynmyndir af jurtum þeim og