Greinar (Vísindafélag Íslendinga) - 01.01.1943, Blaðsíða 44
44
sitt hefir hún engu að síður sem almenn grundvallarregla.
Hún er sérstaklega skýrt orðuð í stjórnlögum Massachu-
settsríkis þannig: „Til þess að lög og réttur, en ekki
menn, ráði í þessu lýðveldi, má löggjafarsamkoman aldrei
taka sér dómsvald né framkvæmdarvald. Framkvæmdar-
valdið aldrei taka sér löggjafarvald eða dómsvald og dóms-
valdið aldrei taka sér löggjafar- né framkvæmdarvald".
Um skipun þinganna og kosningarétt til þeirra skal
ekki fjölyrt hér, en aðeins á það bent, að hann hefir stöð-
ugt orðið víðtækari og víðtækari, þannig að í öllum þorra
lýðræðisríkja hafa flestir fulltíða menn kjörgengi og
kosningarétt, jafnvel án tillits til kyns eða litarháttar.
Samkvæmt kenningunni um valdgreininguna, hlaut það
að verða hlutverk þjóðfulltrúanna að búa svo um hnút-
ana, að þjóðirnar afhentu hverjum valdhafanna ekki
meira vald en svo, að öruggt væri um vernd hinna dýr-
ustu réttinda þegnanna. Almennt má segja, að þessu hafi
verið komið fyrir þannig, að þjóðhöfðingjanum var feng-
ið framkvæmdarvaldið, þjóðþingunum löggjafarvaldið,
en sérstökum óháðum dómstólum dómsvaldið. Og til þess
að tryggja þessa skipun og þar með mannréttindin voru
sett um hana sérstök ákvæði (grundvallarlög, stjórnar-
skrár, stjórnlög), sem ekki varð breytt nema með sér-
stökum hætti, venjulega þannig, að þjóðarviljans væri
leitað með almennri atkvæðagreiðslu. Sá aðilinn, sem
stjórnlögunum ræður, er því enginn hinna venjulegu
valdhafa, heldur þjóðirnar sjálfar eða sérstakur valdhafi,
settur ofar hinum þremur. Lýðræðisskipulagið er því
reist á hugsuninni, sem fram kemur í hinu forna róm-
verska máltæki: „Divide et impera“. En hér fór sem oft-
ar, að framkvæmdin varð ekki í fullu samræmi við kenn-
inguna. Reynslan af einvöldunum hafði gert þjóðirnar
tortryggnar gegn konungsvaldinu, og því var þungamiðja
valdsins að verulegu leyti lögð í hendur þinganna, enda
voru þau og, þar sem bylting var ekki gerð, aðalvopn
þegnanna til sóknar gegn konungsvaldinu. Er nú svo
komið, að konungsvaldið er mjög í skugga þingvaldsins,
þar sem lýðræði ríkir. Þróunin hefir orðið sú, að í stað