Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 125
ARnFRÍðUR GUðMUnDSDóTTIR
124
aðra. Þannig merki synd og freisting ekki það sama fyrir konur og karla, ekki
vegna þess að þau séu í eðli sínu ólík (e. essentialism) heldur vegna þeirrar
mótunar (e. constructivism) sem þau hafa fengið í samfélagi sem byggir á
hugsunarhætti feðraveldisins. Saiving segir markmið sitt sé ekki að halda því
fram að synd konunnar sé minni en synd karlsins þó að synd þeirra hafi ólík
birtingarform. Það sem vaki fyrir henni sé að vekja guðfræðinga til með-
vitundar á þeim mun sem megi greina á reynslu kvenna og karla og mikivægi
þess að tekið sé mið af honum í guðfræðiumræðunni.9
„Ef Guð er karl, þá er karlinn Guð“
Tengslin á milli baráttu fyrir prestvígslu kvenna og femínískrar guðfræði
voru frá upphafi mikil en guðfræðingar innan kirkjudeilda sem neituðu kon-
um um prestvígslu voru framarlega í hópi brautryðjendanna. Á meðal þeirra
var Mary Daly (1928–2010) sem tilheyrði rómversk kaþólsku kirkjunni en
hún átti mikinn þátt í að leggja grunninn að hugmyndafræði femínískrar
guðfræði. Daly var fædd og uppalin í Bandaríkjunum og lauk sinni fyrstu
doktorsgráðu í guðfræði í heimalandi sínu áður en hún flutti til Sviss, þar
sem hún lauk tveimur doktorsgráðum til viðbótar frá háskólanum í Freib-
urg, fyrst í guðfræði og síðan í heimspeki.10 Á þeim tíma sem Daly bjó í
Evrópu stóð yfir síðara Vatikanþing rómversk kaþólsku kirkjunnar í Róm
(1962–1965), en miklar vonir voru bundnar við þann frjálslynda anda sem
þar sveif yfir vötnunum. Meðal þess sem búist var við að myndi breytast í
kjölfar þingsins, var afstaða Rómarkirkjunnar til prestvíglsu kvenna en einn-
ig einkvæniskröfu presta.11 Daly fékk tækifæri til að vera áheyrandi á þinginu
9 Sama rit, bls. 38–39. Tuttugu árum síðar tók gyðinglegi guðfræðingurinn Judith
plaskow (1947) upp þráðinn frá Saiving í bókinni Sex, Sin and Grace. Women‘s Ex-
perience and the Theologies of Reinhold Niebuhr and Paul Tillich sem nú er talin til klass-
ískra rita innan femínískrar guðfræði eins og grein Saiving. niðurstaða plaskow er í
stórum dráttum sú sama og Saiving, nefnilega sú að þó að bæði niebuhr og Tillich
setji mannlega reynslu í forgrunn í guðfræði sinni, sé þessi reynsla takmörkuð við
reynslu karla. Þetta hafi þær afleiðingar að reynsla kvenna verði ósýnileg í verkum
þeirra (Judith plaskow, Sex, Sin and Grace. Women’s Experience and the Theologies of
Reinhold, niebuhr og paul Tillich, new York: University press of America, 1980,
bls. 1–7).
10 Mary Daly, The Church and the Second Sex, Boston: Beacon presss, 1985, bls. 7.
11 Eins og alþekkt er hefur rómversk kaþólska kirkjan ekki enn þá breytt afstöðu sinni
í þessum málum. Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu frá 1976 er prestvígslu kvenna hafnað á
þeim forsendum að það sé í samræmi við vilja Guðs og fordæmi Krists sem valdi bara
karla sem postula. Sjá: „Declaration Inter Insigniores on the Question of Admission
of Women to the Ministerial priesthood“, Sacred Congregation for the Doctrine of the
Faith, 1976, sótt 15. apríl 2022 af https://www.vatican.va/roman_curia/congrega-