Andvari - 01.01.1981, Blaðsíða 99
ANDVARI
í RÍKISRÁÐI 1904-1918
97
Árið 1916 sótti ráðherra íslands engan fund ríkisráðs, enda ekki greiðfært
landa á milli vegna ófriðarins, en þau mál, sem þýðingarmikil töldust, voru
afgreidd utan ríkisráðs með símskeytum, þegar þurfa þótti.
I janúarbyrjun 1917 urðu stjórnarskipti. Einar Arnórsson fór frá og við tók
þriggja ráðherra stjórn undir forsæti Jóns Magnússonar, svo sem kunnugt er,
og var sú breyting bókuð á fundi ríkisráðs hinn 11. janúar 1917, þótt enginn
hinna nýju ráðherra væri þar staddur.
Á því ári sótti forsætisráðherra nokkra ríkisráðsfundi, en ekkert markvert
gerðist þar fyrr en á fundi hinn 22. nóvember. Þannig var, að Alþingi hafði
þá um sumarið samþykkt þingsályktunartillögu um fullkominn siglingafána
svohljóðandi: „Alþingi ályktar að skora á stjórnina að sjá um, að Islandi verði
ákveðinn fullkominn siglingafáni með konungsúrskurði, og ályktar að veita
heimild til þess að svo verði farið með málið.“
Stríðsárin höfðu ljóslega sýnt, að íslandi var orðið nauðsynlegt að fá slíkan
fána. Af þessu tilefni reifaði nú Jón Magnússon forsætisráðherra þetta mál á
áðurnefndum fundi 22. nóvember. Ráðherra lagði til, að konungur féllist á, að
fáni sá, sem ákveðinn var með konungsúrskurði 19. júní 1915, yrði löggiltur
fáni íslands. Á þetta vildi danski forsætisráðherrann ekki fallast, en hann bætti
við: „Af hálfu Dana er það samt að segja, að þeir eru fúsir til nú sem fyrr að
semja um þau deiluatriði, sem fram koma um sambandið milli Danmerkur og
íslands.“ Jón Magnússon sagðist halda fast við tillögu sína. íslenzka stjórnin
legði á það hina mestu áherzlu og Alþingi mundi ekki láta málið niður falla.
Konungur talaði á svipaða lund og danski forsætisráðherrann hafði gert.
Lengra varð ekki komizt á þessum fundi, en það sem þar skeði, varð til
þess, að hreyfing komst nú aftur á sambandsmálið, en það hafði legið um kyrrt
síðan 1913. Á næsta ári 1918 varð samkomulag um skipun hinnar svokölluðu
sambandslaganefndar, sem náði samkomulagi um sambandslögin á fundum í
Reykjavík sumarið 1918, og á þeim grundvelli varð ísland fullvalda ríki hinn
1. desember 1918, svo sem alkunnugt er.
Síðasti fundur í danska ríkisráðinu, sem íslenzkur ráðherra sat, var hald-
inn daginn áður, hinn 30. nóvember, þar sem sambandslögin voru staðfest. I
upphafi fundarins reifaði danski forsætisráðherrann, C. Th. Zahle, gang máls-
ins, samningsumleitanirnar í Reykjavík, meðferð sambandslagasamningsins
bæði í Ríkisþinginu og á Alþingi, svo og þjóðaratkvæðagreiðsluna á Islandi.
Með skírskotun til þess, að öll skilyrði væru uppfyllt, lagði forsætisráð-
herrann til, að konungur staðfesti hin dansk-íslenzku sambandslög, þ. e. danska
textann, sem átti að gilda sem lög í Danmörku. Hann vakti athygli konungs á
því, að nú yrði hinn danski titill hans: Vér Christian X af guðs náð konungur
Danmerkur og íslands o. s. frv., en íslenzki titillinn yrði aftur á móti: Kon-
ungur íslands og Danmerkur. Jón Magnússon forsætisráðherra, sem alltaf er
nefndur „Formanden for Islands Ministerium“ í fundargerðunum, vísaði til