Andvari - 01.01.1981, Blaðsíða 115
ANDVARI
BUGUMST EKKI, BRÆÐUR GÓÐIR -
113
1929, 79 ára að aldri. Þau Sigurður voru 36 ár í hjónabandi, höfðu verið gift
þrettán ár, þegar hann lenti í sjóslysi því, er um getur og gerði hann að kalla
óvinnufæran. Gat hann eftir það einungis borið sig örlítið um og það með
erfiðismunum á tveimur hækjum.
Ég vík nú að lokum fáeinum orðum að kveðskap Sigurðar Eiríkssonar.
I handritadeild Landsbókasafnsins er varðveitt kvæði mikið eftir hann:
Formannatal yfir Reykjavíkurumdæmi 1891, kveðið hefur Sigurður Eiríksson
Sáluhjálparhermaður.
Kvæði þetta er 127 vísur undir dýrum bragarhætti, er nefnist stikluvik.
Sá maður hét Árni Halldór Hannesson í Reykjavík, sem ritað hafði eintak
það, sem ég kynnti mér sérstaklega. En til er önnur uppskrift í handritadeildinni
af sama Formannatali Sigurðar. Á henni er hönd Guðmundar Gottskálksson-
ar í Garðbæ í Njarðvíkum. Á uppskrift Guðmundar er ártalið 1890, og í
meginatriðum ber handritunum saman, þó ekki alltaf um niðurröðun vísna.
Á stöku stöðum er og dálítill orðamunur. Árna handrit er skrifað með meiri
mýkt og fimi með pennann en Guðmundar, en bæði eru þau vel læsileg. Og
er mikillar þakkar vert að hafa bjargað Formannatalinu frá glötun og gleymsku
á þennan hátt, og eigi þó hvað sízt hitt, að hafa komið uppskriftunum í örugg-
ar hendur til geymslu.
Hvert er svo efni þessa ljóðs Sigurðar? Hann nafngreinir flesta, ef ekki alla
formenn í Reykjavík, minnsta kosti þá, sem nokkuð kvað að í þá daga (fyrir
og um 1900). í einni dýrt kveðinni vísu er greint nafn formannsins (oftlega,
þó ekki ávallt), hvar hann á heima, og ekki svo sjaldan tekst höfundinum með
einu orði að sýna lesandanum meginkosti eða vissa eiginleika formannsins.
En þau einkenni þessa ljóðabálks, sem stinga munu í stúf við flestan, ef
ekki allan annan skáldskap af svipuðu tagi, er orðgnótt höfundarins og leikandi
hagmælska. Lítum til að mynda á kenningar hans á sjónum og skipum. Hér
verður ekki um það dæmt, hversu mikið af þessum orðaforða, kenningum og
heitum, eru nýsmíði höfundarins. En hafi hann haft allan þennan orðaforða
tiltækan í huga sér, numinn af tungum feðranna, þá væri slíkt málminni harla
fágætt. Þá hlýtur og að vekja hjá okkur eftirtekt, hversu haglega höfundurinn
beitir þessari streymandi uppsprettu orða á þessum vettvangi og kemur þeim
vel fyrir, svo að ljóðið sprettur fram áreynslulaust, þótt undir dýrum bragar-
hætti sé kveðið.
Þar eð frumrit þessa hetjukvæðis Sigurðar hefur ekki borizt handritadeild
Landsbókasafnsins, er hæpið, að það komi hér eftir í leitirnar.
Þótt Sigurður gengi aðeins í skóla lífsins um dagana, varð honum sízt
skotaskuld úr því að færa sjálfur í letur ljóðin sín. Rithönd hans var áferðar-
falleg, auðkennileg og sviphrein. Þetta sannar vel ættartala hans, sem ég hef
í föggum mínum í ljósriti.
Nú skulu sýnd nokkur dæmi úr Formannatali Sigurðar: