Andvari - 01.01.1981, Blaðsíða 156
154
FRÁ KOMU KAÞÓLSKU NUNNANNA TIL ÍSLANDS 1896
ANDVARI
svefnherbergið okkar. Þar voru þrjú rúm, og máttum við raða þeim hverju
yfir annað til þess að koma fyrir tveimur þvottabölum. Systirin, sem sá um
matseldina, þurfti einnig að búa til mat handa prestunum og síðar sjúkling-
unum. Hún gat því ekki án olíuvélarinnar verið á daginn, og var þess vegna
ekki um annað að ræða en að þvo þvottinn á næturnar. Við suðum hann í
lítilli grýtu, og þannig björguðumst við fyrst framan af. Til þess að strjúka
þvottinn urðum við að hita strokjárnin á eldavélinni. Við gátum því sjaldnast
strokið þvottinn á daginn.
Að því er mat snerti máttum við einnig á stundum færa Guði ofurlitlar
fórnir. Fæða var stundum af skornum skammti, og þess vegna vorum við
frönsku sjómönnunum ekki lítið þakklátar, er þeir af örlæti sínu færðu okkur
stóran kassa fullan af skipskexi, sem dugði okkur í heilt ár með morgunkaffinu
og tevatninu á kvöldin.
Litlu eftir að systir Elísabeth kom hingað til landsins tók hún að hjúkra
sjúkum víðs vegar um bæinn. Fyrir þetta tók hún svolitla þóknun. Hún var
hvarvetna elskuð og virt, enda hurfu hvers konar fordómar um Heilaga kirkju
eftir því sem systurnar komust í nánari tengsl við íslenzkt þjóðlíf. Á hverju
sunnudagskvöldi var litla kirkjan okkar troðfull af fólki. Það kom jafnan
ákaflega vel fram við guðsþjónustuna, að öðru leyti en því, að stundum kom
það fyrir, að einhverjir stóðu uppi á kirkjubekkjunum til þess að geta betur
séð það, sem fram fór við altarið.
Eitt sunnudagskvöldið gerðist það, að séra Frederiksen sagði í miðri
prédikun: ,,Vill maðurinn þarna úti við dyrnar gera svo vel að taka ofan.“
En þetta reyndist þá vera kona með loðhúfu á höfðinu svo stórvaxin, að
prestinum sýndist hún vera karlmaður. Presturinn endurtók orð sín, svo að
veslings konan sá sér ekki annað fært en ryðjast í gegn um mannfjöldann alla
leið upp að prédikunarstólnum, svo að presturinn mætti sjá, að hér væri kona
á ferð. Þetta broslega atvik varð til þess, að þessi ágæta kona heimsótti prest-
inn síðar um kvöldið. Nokkrum dögum eftir þetta hóf hún nám í kaþólskum
fræðum. Á aðfangadag jóla tók hún kaþólska trú, og á jóladag var hún í fyrsta
sinni til altaris. Þessi íslenzka kona er ein af afkomendum Jóns Arasonar,
síðasta kaþólska biskupsins yfir Islandi.1
Af miklum dugnaði og fyrirhyggju tókst sóknarprestinum okkar, séra Jo-
hannesi Frederiksen, að afla fjár til lítillar kirkju, og nokkrum mánuðum eftir
heimkomu hans var hafizt handa um byggingu hennar. Okkur til mikillar gleði
þóknaðist Himnaföðurnum að leita skjóls hjá okkur, því að á meðan bygging
kirkjunnar stóð yfir var heilög messa lesin í einu af herbergjunum okkar.
Gömlu kirkjunni, sem nú var orðin mjög úr sér gengin, var breytt í
1. Hér er átt við Guðlaugu Arason kennslukonu, 1855-1936, frá Flugumýri í Skagafirði. Hún
var á sínum tíma einn af kunnustu borgurum Reykjavíkur. Hafði forframazt í erlendum skól-
um meðal annars í Bonn og einkum lagt stund á skriftarkennslu. Hún gerðist kaþólsk rúmlega
fertug að aldri og kenndi um árabil í ýmsum skólum bæjarins. Síðustu æviár sín átti hún heima
í Kaupmannahöfn, og þar andaðist hún.