Andvari - 01.01.1981, Blaðsíða 158
156
FRÁ KOMU KAÞÓLSKU NUNNANNA TIL ÍSLANDS 1896
ANDVARI
öðrum um borð. Veður var fagurt og kyrrt, svo sem bezt verður á kosið. En
smám saman gerði úðaregn líkt og himnarnir skynjuðu þær tilfinningar, sem
bærðust í allra brjóstum. Eftir tuttugu mínútna róður vorum við komin að
grafreitnum, sem er undir háu fjalli. Jarðvegur þar er þunnur og örgrunnt ofan
á naktar klappirnar. Presturinn flutti prédikun, vígði gröfina og bað fyrir
hinum framliðna. Þvínæst var mold og mulningi mokað yfir kistuna og gröfin
að lokum þakin grassverði. Þetta var fyrsti franski sjómaðurinn, sem naut góðs
af hjúkrun systranna og prestsþjónustu á Fáskrúðsfirði.
Fyrstu árin okkar í Reykjavík nutum við styrks frá Frakklandi, en árið
1902 lét franska stjórnin reisa spítala í öðrum hluta bæjarins. Síðan hafa engir
Frakkar legið í sjúkraskýlinu hjá okkur.
Það var fögur sjón að sjá hvítmáluð fiskiskipin liggja á höfninni. Dag einn
sáum við mjög stórt gufuskip sigla inn flóann. Á stórsiglu blakti þríliti fáninn
franski við hún. Þetta var ,,La Manche“, sem kemur á hverju ári hingað til
Islands til þess að líta eftir frönsku fiskiskipunum og veita þeim aðstoð.
Naumast hafði „La Manche“ varpað akkerum áður en skipherrann kom á fund
séra Osterhammels til þess að biðja hann um að lesa messu um borð í skipinu.
Jafnframt var móður okkar, príórinnunni, og mér boðið að koma um borð
með prestinum til þess að annast allan undirbúning fyrir messugerðina. Slík
guðsþjónusta um borð í frönsku herskipi er unaðsleg og viðburður, sem gleym-
ist seint. Sjóliðarnir reru okkur um borð í litlum, en afar snotrum skipsbát.
Skipherrann heilsaði okkur alúðlega og fylgdi okkur niður á miðþiljur, sem
breytt hafði verið í skínandi fallega kapellu, svo að ekki varð á betra kosið.
Innst á þilfarinu var kórinn vafinn fánum og skreyttur vopnum og rósaflúri.
Altarinu var komið fyrir á teppalögðum lestarhlerum og var svo hátt, að það
sást alls staðar að af þiljunum. Hlerarnir fyrir ofan altarið voru fjarlægðir og
lestaropið þakið gulu klæði, þannig að allur kórinn og altarið voru lauguð
gullnum bjarma. Áður en messan hófst var franski þjóðfáninn tekinn ofan og
guðsþjónustuflaggið, þríhyrningur hvítur að lit með rauðum krossi, dregið að
hún í staðinn. Við náðum í messuklæðin, ferðaaltarið og annan nauðsynlegan
útbúnað, sem við höfðum með okkur, og eftir skamma stund var allt tilbúið.
Skipverjar á herskipinu voru 125 að tölu. Meðan presturinn skrýddist messu-
skrúðanum, gengu sjóliðarnir inn. Allt í einu kveður við skipun: „Standið
rétt.“ Byssuskeftin dynja á þilfarinu, því að nú koma skipherrann og liðsfor-
ingjar hans. Áður var hann búinn að fara um borð í hvert einasta fiskiskip til
þess að bjóða til helgra tíða. Honum var það metnaðarmál, að allir skipstjórar
og meginhluti skipshafnanna væri viðstaddur athöfnina. Nú hefst messan.
Okkur móður Ephrem og mér var vísað til sætis á hægri hönd við skipherr-
ann. Að lokinni þrepbæn eru lúðrar þeyttir. Við umbreytinguna1 kveða við
1. Umbreyting eða transubstantiatio, eins og það heitir á kirkjunnar máli, þýðir samkvæmt
kaþólskri kenningu breyting brauðs og víns í altarissakramentinu í líkama og blóð Frelsarans
Jesú Krists. Þetta er eitt af þeim meginatriðum, sem aðskilja kaþólska og lúterska trú.