Andvari - 01.01.1981, Blaðsíða 117
ANDVARI
BUGUMST EKKI, BRÆÐUR GÓÐIR -
115
Hólmasundi (í nánd við Akurey) 22. maí 1888, þá er Sigurði og tveimur
félögum hans var bjargað úr heljargreipum. Þetta er tilgáta. En dagblöðin í
Reykjavík létu sér svo fátt um þessa björgun finnast, að þau steinþögðu um
það, hver hefði hrifsað þarna 3 vaska sjómenn úr „kverkum dauðans“.
Sigurður Eiríksson var hraðkvæður hagyrðingur og auk þess gæddur næmu
skopskyni, hafði opin augu og eyru fyrir broslegum orðræðum manna, kækj-
um og tilgerðarlegu látbragði. Hann hlaut því iðulega (einkum á yngri árum)
að nota þessa hæfileika sína og sérgáfu til þess að feykja á burt deyfð og
lognmollu hversdagsleikans og vekja glaðværð með því að bregða upp í ljóði
lífrænni svipmynd á líðandi stund. Þótt þessum skyndibögum Sigurðar hafi
langflestum verið skotið út í bláinn, loddi eigi að síður ein og ein vísa í
minni manna.
Eftir að Sigurður réðst að Kalmanstungu, var forsöngvari í sóknarkirkju
hans að Gilsbakka Hjálmar Þorsteinsson bóndi á Kolsstöðum, greindur
heiðurs- og sómakarl. Kemur hann dálítið við sögu í ritum Kristleifs Þorsteins-
sonar (sjá Ur byggðum Borgarfjarðar IL bindi, bls. 335). Þar segir svo:
,,Séra Jón Hjartarson á Gilsbakka (d. 1881) var meðal beztu söngmanna
sinnar tíðar. Voru Grallaralögin sungin í sóknum hans. Hvítsíðingar áttu þá
litla völ góðra söngmanna. Hjálmar á Kolsstöðum var þá forsöngvari í Gils-
bakkakirkju, en Daníel á Fróðastöðum í Síðumúla. Báðir voru þeir gáfaðir
menn og námfúsir.
Þeir kunnu Grallaralögin upp á sína tíu fingur, en fyrir sönginn fengu þeir
lítið lof. Hjálmar var háróma, og gutlaði hann og dillaði röddinni upp og
niður og bjó til boga og trillur eftir sínu höfði til viðbótar því, sem lagið vísaði
til. Vel má vera, að rödd hans hefði getað orðið nothæf með tamningu, en fyrir
þessa taumlausu ringi varð hún næstum óþolandi. Ég get hér þessa manns sem
fulltrúa þeirrar venju, sem þá var ríkjandi (í söng) meðal margra hinna eldri
manna.“
Um þessa sérstæðu söngaðferð Hjálmars á Kolsstöðum orti Sigurður Eiríks-
son eftirfarandi vísu:
Helztu gálma hef ég séð
á helgra sálma ráði,
þegar Hjálmar hringli með
hrína’ og mjálma náði.
Árni Halldór Hannesson, sem þegar er nefndur, hefur einnig skrifað upp
annan brag Sigurðar, Missæl er þjóðin, og er uppskrift hans varðveitt í Lands-
bókasafninu. Erindi þessa kvæðis eru 27 talsins, og er bragarhátturinn bak-
sneidd braghenda.
I kvæði þessu er höfundurinn að bera saman hin gagnólíku ævikjör mann-
anna, þeirra sem búa við allsnægtir og baða í rósum og hins vegar gustuka-
mannanna, bónbjargalýðsins tötrumklædda. Ég birti hér nokkur erindi: