Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 21
ANDVARI
SIGURÐUR GUÐMUNDSSON
19
og hve sjaldan hann þarf að sveigja frá eðlilegri orðaröð, dregur
fram ágæti hans og takmarkanir á ljósan hátt. Öll greinin ber næm-
um bókmenntasmekk Sigurðar gott vitni.
Um háskólaár Sigurðar segir eftirmaður hans í starfi Þórarinn
Björnsson þetta:
. . . fór hann sér að engu óðslega, heldur hugsaði um að auðga anda sinn og
menntast. Heyrði ég hann oftar en einu sinni tala um að hraði í námi væri
lítt þroskavænlegur. Til sannrar menntunar þyrfti tíma. Á þessum árum las
hann mjög rit hinna stærstu anda, skálda og heimspekinga, og minntist
þeirra stunda jafnan með gleði. Hann þræddi eigi hina beinustu prófleið, en
lauk þó meistaraprófi í norrænum fræðum 1910.
Gat hann þess stundum, að ef til vill hefði hann ekki haft betra af öðru
námi en því, er hann braust í gegnum það sem honum þótti þurrast og leið-
inlegast, en það var forndanska og forndönsk hljóðlögmál. Hafði hann æ síð-
an mikla trú á erfiðisgildi námsins, að mönnum væri andlega og siðferðilega
hollt að læra fleira en það sem þeim væri leikur að læra og var hann þar að
nokkru leyti á öndverðum meið við ríkjandi stefnur í uppeldismálum.6
4. Kennsla og ritstörf í Reykjavík
Þegar Sigurður hverfur heim að loknu námi eru atvinnuhorfur ekki
glæsilegar fyrir ungan menntamann. Engar vísindastofnanir bjóða
hann velkominn. Háskólinn er aðeins draumur, sem að vísu á
skammt í að rætast. í Reykjavík eru þá aðeins tveir framhaldsskólar:
Menntaskólinn og Kennaraskólinn. Sigurði býðst stundakennsla við
Iðnskólann og síðar við Menntaskólann, þar sem hann kennir í ára-
tug en aðeins fáar stundir á viku. Árið eftir býðst honum einnig starf
við Kennaraskólann. íslenskukennarinn þar, doktor Björn Bjarna-
son frá Viðfirði, getur ekki sinnt starfi sínu sakir veikinda og Sig-
urður hleypur í skarðið. Svo fór að Björn átti ekki afturkvæmt að
skólanum. Hann dvaldist á berklahælum hérlendis og erlendis án
þess að fá bata, og andaðist haustið 1918, aðeins 45 ára að aldri. Sig-
urður var staðgengill Björns þessi ár, en fasta ráðningu hlaut hann
ekki fyrr en 1917, þegar útséð var um að Björn kæmi aftur til
kennslu. Þessi langa bið eftir fastri stöðu var þó engan veginn vegna
þess að Sigurður þætti linur kennari, en hún ber því glöggt vitni hve
íslenskt þjóðfélag var smátt og úrræðalítið á þessum tíma.