Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 116
114
ÞORSTEINN GYLFASON OG SIGURÐUR STEINÞÓRSSON
ANDVARI
kringum jörðina - og honum datt í hug að reyna sporbaug. Það sem á eftir
fylgir held ég sé innifalið í formúlunni fyrir sporbaug. Hugmyndaflug, já.
En sköpunargáfa? Það er annað mál. Guernica er e.k. brúkslist líka,
ádeilulist sem lýsir hryllingi stríðsins, en þykir bera snilli skapara síns vitni.
(Aðrir segja reyndar, að Picasso hafi mestmegnis verið skapaður af sölu-
og umboðsmönnum, og margir betri málarar liggi nú gleymdir.) Watson
hefur lýst eftirminnilega hvernig tvöfaldi gormurinn uppgötvaðist - rönt-
gengögnin lágu fyrir, og listin var sú að finna kristalgrind sem samræmdist
þeim gögnum. Hugmyndina um gorm fengu þeir Watson og Crick frá Pet-
er Pauling, sem sagði þeim að Línus faðir sinn væri að setja saman gorm-
líkan á tilraunastofu sinni, og svo rambaði Crick á tvöfalda gorminn. I vís-
indadæmunum, sem ég valdi af því þau komu fyrst í hugann, er samnefn-
arinn sá að gögn falla ekki að líkani eða hugmynd, o« menn liggja yfir
þessu þar til þeim dettur í hug líkan sem passar betur. I listadæmunum er
þetta einhvern veginn allt öðru vísi.
V
Þorsteinn:
Ég verð að byrja á leiðréttingu. Pað var ekki ég sem hélt því fram að skáld-
gáfan væri brjálæði heldur hafði ég þetta eftir Platóni. Svo bar ég þessa
hugmynd Platóns saman við niðurstöður frægs ungversks sálfræðings í
Ameríku, Mihálys Csikszentmihály, sem rannsakað hefur snilligáfu í ára-
tugi og gerir hana ögn brjálæðislega í lýsingum sínum. Snillingarnir hans
eru ekkert endilega vísindamenn eða listamenn. Þeir geta líka verið skurð-
læknar, fótboltamenn eða skákmeistarar. Loks reifaði ég þá hugmynd að
eitt af einkennunum sem Csikszentmihály greinir hjá snillingum sínum
komi heim við hugmynd Platóns. Spjall mitt um þetta efni er nú prentað
undir yfirskriftinni „Snilld og brjálæði“ í tímaritinu 2000, sumarhefti 1990.
Svo er ég ekki alveg sammála Sigurði um sögnina að þekkja. Að þekkja
mann er ekki endilega að skilja hann og að þekkja sjálfan sig er ekki held-
ur endilega að skilja sjálfan sig. Maður sem þekkir sjálfan sig veit til dæmis
að hann er skapstór, hégómagjarn og óhóflega ástleitinn við skál. Hann
hagar sér eftir föngum samkvæmt þeirri vitneskju, eða það skulum við
vona. En hann þarf ekki að botna neitt í þessum eiginleikum sínum frekar
en aðrir botna í þeim. Ég ætla því að fá að halda áfram að fara með þekk-
ingu og skilning - það að vita og hitt að skilja - sem ólík fyrirbæri og jafn-
vel að einhverju leyti öndverð:
Til dæmis um vitneskju tók ég þann fróðleik sem símaskrár hafa að
geyma. Tíðnikönnun á nöfnum held ég að komi þeim fróðleik, símanúm-
erum og heimilisföngum, ekkert við. En sleppum því. Sigurður andmælir