Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 152
150
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
ANDVARI
II
Sturlungaöldin hefur löngum fengið ómilda dóma. Fyrir nærri 300 árum
samdi Arngrímur Jónsson lærði fyrsta heildstæða ritið um sögu íslands,
Crymogeu, og segir þar:3
Þegar dró að breytingu stjórnskipunar á íslandi hafði hið ágæta höfðingjaveldi tekið
að breytast í hina verstu fámennisstjórn, og því voldugri sem höfðingjar voru, þeim
mun ákafar sóttust þeir eftir einræði. Þeir höfnuðu reglum laga og réttlætis, sem for-
feður þeirra höfðu virt og lifað eftir í friði nær 400 ár; þeir framkvæmdu allt með of-
beldi og vopnavaldi og kunnu sér ekkert hóf í vígum, flokkadráttum, ránum og alls
konar illvirkjum. . .
Blóðsúthellingar voru ekki aðeins í orustum heldur og á nóttu og degi og öllum
stundum. . .
Þegar þjóðveldið var með þessum hætti tætt í sundur kom Noregskonungur því til
leiðar sem hann hafði lengi ætlað sér. Landsmönnum virtist ekki heldur önnur leið
greiðari né annað ráð öruggara til þess að friða þjóðfélagið en að bæði höfðingjar og
alþýða lytu valdi eins konungs.
Þó er Arngrímur hlynntur konungsvaldi, en hann er líka ákafur aðdáandi
þjóðveldisins eins og hann taldi að það hefði verið fyrrum. Þar á milli sér
hann hina svörtustu óöld.
Ekki hækkaði Sturlungaöldin í áliti þegar sjálfstæðisbaráttan fór að móta
sögutúlkun íslendinga. Pá var Sturlungaöld ekki einungis slæm í sjálfu sér
og afleit í samanburði við hina klassísku gullöld sem á undan fór, heldur
var hún umfram allt dæmd fyrir þær afleiðingar sínar að koma Islandi undir
erlenda stjórn. Þessi áfellisdómur klingir t.d. í orðum Gunnars Benedikts-
sonar þegar hann talar um4
þau harmsögulegu örlög þessarar aldar, að hún samningsbindur íslenzku þjóðina
konungi annarrar þjóðar og bjó henni þar með það hlutskipti, að erlend kúgun var
meginbölvaldur hennar upp frá þeirri stundu. . .
III
Einhvern tíma hefði áfellisdómur af þessu tagi talist fela í sér kjarna máls-
ins um Sturlungaöld; þar kæmu engar málsbætur til greina. En síðan urðu
þau tíðindi í bókmenntasögu að íslensk fornrit, og einkum íslendingasög-
ur, reyndust miklu yngri verk en áður var talið. Sturlungaöldin reyndist þá
einmitt vera mesta blómaskeið fornbókmenntanna. Hún var ekki aðeins
öld Snorra Sturlusonar; hún - eða 13. öldin - var einnig öld hinna nafn-
lausu meistara Islendingasagnanna; og jafnframt hófust þá eða náðu
þroska margvíslegar bókmenntir aðrar, sem mönnum lærðist að meta