Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 82
80
GUÐBJÖRG ÞÓRISDÓTTIR
ANDVARI
Þar má finna sögur af göfugum mönnum sem iðka guðlegt líf og þeim djöfl-
um sem freista þeirra. Einnig eru þar spennandi sögur af helgum meyjum
sem einhverra hluta vegna eru dæmdar til dauða og eru síðan teknar í dýrl-
ingatölu. Ástæðan fyrir því að þær eru dæmdar til dauða er oft sú að þær
hafna bónorði og leggja alla sína ást á Jesúm Krist. Biðillinn verður óður af
reiði þegar honum er hafnað og lætur taka konuna af lífi. Þegar konurnar
eru teknar af lífi eru nákvæmar lýsingar á þeim aðferðum sem notaðar eru
til þess að drepa þær. Það er augljóst að verið er að drepa kvenmann. Það
eru skorin af þeim brjóstin og ýmislegt fleira sagt og gert sem minnir á
hrottalegustu misþyrmingar á konum. Einhvers staðar á bak við verkin eru
sögumenn eða höfundar sem leggja áherslu á ólíkar hliðar mannlífsins. Sá
höfundur sem vill leggja áherslu á að freistarinn eða djöfullinn sjálfur birt-
ist í konulíki er annar en sá höfundur sem leggur áherslu á að draga fram
misþyrmingar á konum, sem hafna karlmönnum. Sögurnar spegla and-
stæða heima. En hvort er Diljá heldur djöfull eða dýrlingur?
Diljá er auðmjúk og af hjarta lítillát. Hún vill líkjast manninum sem hún
elskar en lítur ekki á sig sem jafningja hans. Hann stendur fyrir utan og of-
an hana að gáfum. Hann er skáldið og heimsmaðurinn og í fljótu bragði er
hægt að draga þá ályktun að Steinn Elliði leiki Halldór Laxness sjálfan,
manninn sem ferðast um heiminn, semur sögur og ljóð og dvelur um stund
með munkum. En þegar betur er að gáð er önnur persóna verksins fulltrúi
höfundarins og drengsins Halldórs Laxness.
Breytni eftir Kristi er þýðing á verki Thomasar a Kempis, De Imitatione
Christi, sem Steinn Elliði les og er hrifinn af. Hann vill breyta eins og
Kristur sem hann vill nálgast. Diljá vill breyta eins og skáldið Steinn Elliði
sem hún telur sér miklu fremri. Hún er auðmjúk og lítillát en Steinn Elliði
efast ekki um hæfileika sína sem skáld. Hann er ekki laus við hroka þegar
hann fer með ljóð sitt fyrir Diljá og hún skynjar niðurlægingu sína. Thomas
a Kempis varar þá menn við hroka, sem vilja lifa í samfélagi við guð. Hann
segir: „Sífelldur friður er með hinum auðmjúku, en í hjörtum dramblátra
manna ríkir tíðum öfund og gremja.“ (7, bls. 19) Hjarta Diljár er fullt af
sársauka en hún öfundar ekki Stein Elliða. Hana langar að nálgast hann í
gegnum skáldskapinn og föndrar þess vegna sjálf við skriftir. En hún er
auðmjúk og kannast við fáfræði sína.
Ljóðið Unglingurinn í skóginum er að hluta til fellt inn í persónulýsingu
Steins. Diljá rifjar upp eitt og annað í bréfum, sem hún ætlar sér ekki að
senda honum. Þar segir hún meðal annars:
Þú réðst þér ekki fyrir fögnuði og innblæstri og talaðir við mig í nýortum galdrakvæð-
um og seiðmálum, og þegar þú sást hvað ég var heimsk og ófróð gafstu mér bæði
uppstroku og niðurstroku: