Andvari - 01.01.1992, Blaðsíða 130
128
ÞORGEIR ÞORGEIRSON
ANDVARI
þýðingu hans eins og þau væru frumkveðin á íslensku og framandleika-
blærinn sem þau bera á ekki rót í framandi tungu heldur er þetta blærinn
sem allur ferskur skáldskapur ber með sér hvar og hvenær sem er. Eins er
þetta fyrir sitt leyti með lausamálsþýðingar Geirs.
Vonandi er ekkert einhlítt svar til við því hvernig menn eins og Geir
Kristjánsson töfra fram textana sína, en þó má láta sig gruna margt um
það.
A árunum 1956, ’57 og ’58 fylgdist ég náið með vinnubrögðum Geirs sem
þá þegar var farinn að starfa markvisst að þýðingum sínum. Mér virtist
hann spar á pappírsnotkun. Þó hann væri fljótur að skynja og skilja eðli
þess sem hann las settist hann ekki strax niður við að þýða orðin, ég held
að þýðingarstörf hans hafi ekki byrjað fyrr en hann kunni nánast utan að
það verk sem hann ætlaði að þýða. Og ekki man ég betur en það hafi ein-
mitt verið Geir sem fyrstur manna sagði það í mín eyru að þýðing textans
orð fyrir orð væri öruggasta leiðin til að steindrepa verkið í þýðingunni.
Kannski er ofmælt að hann lærði verkin utan að, því best er líklega að lesa
sig það djúpt inn í verk sem maður er að þýða, að tilfinningin fyrir því
verði líkt og hálfgleymd hugsun manns sjálfs fremur en að læra verkið eins
og páfagaukur.
Einhvern veginn þannig vann Geir.
Stundum fannst mér, þegar Geir var að þylja upp úr sér þýðingakaflana
sína (hann las manni aldrei neitt af blaði á þeim árum), að þetta væru mót-
tökuathafnir fremur en upplestrar. Að hann hefði sent verkin sem hann
ætlaði að þýða eins og kafbáta inn í sálardjúpin, þar sem orðin synda lif-
andi um náttúrlegt umhverfi sitt. F>að leikur einlægt svo neðansjávarleg
birta um orðin í þýðingunum hans Geirs. En þessi birta úr sálardjúpunum
er nú einmitt það sem við köllum skáldskaparblæ. Og þegar Geir þuldi
Púskín, Evtúsjenkó eða Pasternak upp úr sér á íslensku var eins og hann
væri bara að skipa þýðingunum upp úr sálarfari sínu. Við þónokkuð hátíð-
lega athöfn. Eessi hugmynd mín hefur víst kviknað af ytri aðstæðum. Þau
ár bjó Geir við Tjarnargötu í fjarska tómlegu súðarherbergi með einum
þakglugga og nefndi þá vistarveru sína Skip himinsins, enda voru skýin
lengi vel þær einu mubblur sem kapteinninn á Skipi himinsins átti.
Sálardjúpaútgerð með verk erlendra höfunda er vitaskuld bæði seinleg
og dyntótt. Annar norrænn afburðaþýðandi, daninn Ivan Malinovski,
hafði svar á reiðum höndum væri hann spurður hvað þyrfti til að þýða ljóð.
- Það þarf tíma, sagði hann, og væri þá beðið um nánari skýringu svaraði
Malinovski:
- Ljóðaþýðandi verður að hafa næði til að slæpast 24 tíma í sólarhring,
jafnvel vikum saman fyrir eitt lítið ljóð.
Skapandi þýðingar eru semsé tímafrekar. Engu síður en frumsamning